Ógnuðu húsráðendum með eggvopni

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi að tilkynning …
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi að tilkynning hafi borist um þetta snemma morguns og að lögregla hafi haft upp á mönnunum, handtekið þá og tekið af þeim skýrslu. mbl.is/Eggert

Tveir karlmenn voru handteknir af lögreglunni á Austurlandi í gær, grunaðir um að hafa farið inn í hús á ótilgreindum stað í umdæminu snemma í gærmorgun og ógnað húsráðendum með eggvopni. Einn húsráðenda hlaut smávægilega áverka, þó ekki eftir eggvopnið.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi að tilkynning hafi borist um þetta snemma morguns og að lögregla hafi haft upp á mönnunum, handtekið þá og tekið af þeim skýrslu. Mönnunum var síðan sleppt. Málsatvik eru talin liggja fyrir, en lögreglan segist ekki ætla að veita frekari upplýsingar vegna málsins.

Fjórtán fíkniefnamál um helgina

Þá greinir lögregla frá því að fjórtán fíkniefnamál hafi komið upp á Austurlandi um liðna helgi, flest í tengslum við Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, sem fram fór á Seyðisfirði. Þar af eru tvö mál til rannsóknar hjá lögreglu, en í öðrum tilvikum var „um svokölluð neyslumál að ræða“, samkvæmt lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert