419 ökumenn sektaðir eða sviptir við grunnskóla

Fjölmörg börn eru á ferli í umferðinni við grunnskóla og …
Fjölmörg börn eru á ferli í umferðinni við grunnskóla og því eru ökumenn minntir á að virða hámarkshraða. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alls mega 419 ökumenn búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi vegna hraðakstursbrota á stöðum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Ómerkt lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði hefur undanfarið verið við eftirlit við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem þekkt er að börn þurfi að þvera veg til að komast til og frá skóla. 

Á þessum stöðum, þar sem leyfður hámarkshraði er 30, hefur meðalhraði hinna brotlegu verið 44 km/klst. Við fyrrnefndar hraðamælingarnar hefur 45 ökutækjum verið ekið á 50 km hraða eða meira, en sá sem hraðast ók mældist á 69 km/klst. Nokkur önnur dæmi voru jafnframt um ökumenn sem óku á meira en tvöföldum leyfðum hámarkshraða. 

„Niðurstaðan sýnir að ökumenn verða að gera betur og því er full ástæða til að minna þá á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi í námunda við skólana þar sem margir eru á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu. Allir ættu að geta fallist á mikilvægi þess að leyfður umferðarhraði sé virtur í kringum skólana og við þær leiðir sem börnin okkar nota til að komast til og frá skólum og frístundastarfi. Virðum rétt þeirra – virðum hámarkshraða.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert