Leiðir ríkis og kirkju skilji eftir 15 ár

Frá þingsetningu í Dómkirkjunni 2017.
Frá þingsetningu í Dómkirkjunni 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn fjögurra flokka hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórn verði falið að leggja fram frumvörp um fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju. Skuli frumvarp lagt fram eigi síðar en á vorþingi 2021 og kveða á um aðskilnað eigi síðar en við árslok 2034, eftir fimmtán ár.

Að frumvarpinu stendur allur þingflokkur Viðreisnar, en auk þeirra eru tveir þingmenn úr hverjum flokki; úr Pírötum, Samfylkingu og Vinstri grænum. Fyrsti flutningsmaður er Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar.

Í greinargerð með tillögunni segir að ríki og kirkja eigi sér langa og samofna sögu. Hún hafi í senn trúarlegt, menningarlegt og samfélagslegt hlutverk og það beri að virða og viðurkenna. Á síðustu árum hafi hins vegar orðið miklar breytingar á viðhorfi til trúar, og hlutverki hennar í nútímasamfélagi. Mikilvægt sé að jafnræði gæti milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og þeirra sem kjósa að standa utan slíkra félaga.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagur beggja

Bent er á þá mikla fækkun sóknarbarna síðustu ár og að fátt bendi til að sú þróun muni breytast á komandi árum. „Nálægt 100% landsmanna voru skráðir í þjóðkirkjuna á sínum tíma sú staða er nú en gjörbreytt. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru um 90% landsmanna í þjóðkirkjunni árið 1998 en 65% um næstliðin áramót. Þá hefur fólki innan þjóðkirkjunnar beinlínis fækkað allar götur frá árinu 2010. Árið 1998 voru 244.893 skráðir í þjóðkirkjuna en 232.591 um síðustu áramót. Utan þjóðkirkjunnar voru á sama tíma 124.400 manns. “

Eftir sem áður sé þjóðkirkjan stærsta einstaka trúfélagið og ætti að sama skapi að vera best í stakk búin til að standa á eigin fótum af öllum trú- og lífsskoðunarfélögum. Megi ætla að þjóðkirkjan, ekki síður en ríkið, hefðu haf af lagalegum og fjárhagslegum aðskilnaði þessara stofnana.

Hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda að því er fram kemur í 62. grein stjórnarskrár. Þess er þó sérstaklega getið í stjórnarskrá að breyta megi þessu með lögum, en aðeins er ein önnur grein í stjórnarskránni orðuð á þann hátt; sú er fjallar um samkomudag reglulegs alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert