Jafnréttislög ná ekki utan um kvennakvótann

Jón segir að árangur vegna kynjakvóta hafi látið á sér …
Jón segir að árangur vegna kynjakvóta hafi látið á sér standa hérlendis. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert

Jafnréttislögin (10/2008) ná ekki utan um röðun eða val stjórnmálaflokka á framboðslista. Þetta segir Jón Fannar Kolbeinsson lögfræðingur Jafnréttisstofu spurður hvort nýr kvennakvóti Samfylkingarinnar standist lög.

Samþykkt var á flokk­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að breyta kynja­kvóta í kvenna­kvóta. Með breyt­ing­un­um er aðeins gert ráð fyr­ir að hlut­fall kvenna sé tryggt í efstu sæt­um fram­boðslista, en ekki kynj­anna eins og áður var. Með breyt­ing­unni verður körl­um ekki leng­ur lyft upp um sæti vegna ákvæða um kynja­kvóta, aðeins kon­um.

„Í greinargerð með frumvarpi sem var sett við breytingar á lögum númer 5/1998 kemur fram að það sé á ábyrgð flokkanna sjálfra að tryggja jafna stöðu kynjanna á framboðslistum sínum. Í sömu greinargerð er tekið fram að gildandi kosningakerfi hérlendis tryggi ekki kynjajöfnuð með neinum hætti.“

Kynjakvótar hafi ekki borið áætlaðan árangur

Flutn­ings­maður til­lög­u um kvennakvóta telur að kynja­kvót­ar hefðu verið hugsaðir til að jafna hlut kvenna í stjórn­mál­um. Að hans mati er kvennakvótinn því liður í að sjá til þess að kynja­kvót­ar gegni áfram sínu hlut­verki.

Jón segir að árangur vegna kynjakvóta hafi látið á sér standa hérlendis. „Það hefur vantað úrræði, einhver viðurlög til þess að geta brugðist við því þegar þeim lagaskilyrðum er ekki mætt.“

Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu.
Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu. Ljósmynd/Aðsend

Jón tekur þó fram að Jafnréttisstofa hafi dagsektarheimildir. Nýverið var samin reglugerð í forsætisráðuneytinu sem fjallar um það hvernig þessum dagsektum skuli vera beitt. Hún er nú í ferli.

Nú er endurskoðun á jafnréttislögum að fara af stað. „Ég geri ráð fyrir því að þetta verði eitt af þeim atriðum sem verður rætt nánar þar,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert