Brotist inn í Landsbankann

Höfuðstöðvar Landsbankans eru í Austurstræti en bankinn er með starfsemi …
Höfuðstöðvar Landsbankans eru í Austurstræti en bankinn er með starfsemi á fleiri stöðum í miðborginni. Ekki fást upplýsingar um það hvar brotist var inn. mbl.is/Árni Sæberg

Einn maður braust inn í Landsbankann á sunnudagsmorgun. Hann er ekki talinn hafa stolið neinu. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi Landsbankans, Rúnar Pálmason, í samtali við mbl.is.

„Ég get staðfest að það komst maður inn í afmarkaðan hluta skrifstofurýmis en það bendir ekkert til þess að hann hafi haft neitt á brott með sér. Lögreglan er með málið í rannsókn,“ segir Rúnar.

Ekki fást upplýsingar um það í hvaða byggingu Landsbankans í miðborginni maðurinn braust inn en Landsbankinn er með starfsemi á nokkrum stöðum.

„Ég get staðfest að það var farið inn í Landsbankann og tæknideildin er að rannsaka hvernig var farið þar inn,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is.

„Það var farið inn í afmarkað skrifstofurými en engu virðist hafa verið stolið. Einn einstaklingur var í einhvern tíma inni í bankanum. Hann var handtekinn tæpum sólarhring síðar,“ bætir hann við.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu og er grunaður um fleiri innbrot á öðrum stöðum á sama sólarhring að sögn Guðmundar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert