Nokkrir skjálftar en fer fækkandi

Skjálft sem varð klukkan 11:03 í fyrrdag, 3,2 að stærð, …
Skjálft sem varð klukkan 11:03 í fyrrdag, 3,2 að stærð, fannst á Húsavík. mbl.is/Helgi Bjarnason

Jarðskjálftahrina í og við Öxar­fjörð virðist í rénum. Þó hafa átta skjálftar mælst á svæðinu rétt tæpa 30 kílómetra vestnorðvestur af Kópaskeri frá því klukkan sex í morgun. Frá því á laugardag og fram á mánudagsmorgun mældust rúmlega 500 skjálftar á svæðinu.

Skjálftarnir sem hafa mælst í morgun eru ekki stórir en sá stærsti mældist 2,8 stig.

Þrír stærstu skjálftarnir í hrinunni eru 3,5 stig, 3,2 stig og 3,1 stig. Stærð flestra skjálftanna hingað til er á bilinu 1,0-2,0. Stærstu skjálftanna varð vart í næstu byggðum.

Jarðskjálftahrinan á upptök sín á Tjörnesbrotabeltinu en þar varð síðast öflug hrina í lok mars á þessu ári. Í þeirri hrinu mældust um 2.600 skjálftar á um það bil viku, þar sem stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð. Skjálftarnir í þeirri hrinu voru nær Kópaskeri, eða í um 6 km fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert