Sáttir náðst hjá Vinnueftirlitinu

Vinnueftirlitið fylgist með aðbúnaði á byggingarvinnustöðum.
Vinnueftirlitið fylgist með aðbúnaði á byggingarvinnustöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mannauðsstjóri og núverandi starfsmenn Vinnueftirlitsins sem komu með beinum hætti að máli er varðar samskipti innan stofnunarinnar hafa náð sáttum sín á milli.

Farið hefur verið yfir málið, meðal annars með utanaðkomandi fagaðilum. Litið er svo á  að málinu sé lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinnueftirlitinu. Fram kemur að vilji allra aðila, bæði mannauðsstjórans og viðkomandi starfsmanna stofnunarinnar, sé að málið hafi engin neikvæð áhrif til framtíðar.

Talsverð ólga hefur verið innan stofnunarinnar eftir að nýr forstjóri tók þar við um síðustu áramót og gerði ýmsar breytingar, meðal annars á störfum og starfskjörum.

Tilkynningin í heild sinni:

„Mál sem varðar samskipti innan Vinnueftirlitsins sem urðu í mars síðastliðnum þar sem ákveðins misskilnings gætti milli aðila hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið.

Vinnueftirlitið vill koma því á framfæri að farið hefur verið vel yfir málið með aðilum, meðal annars með utanaðkomandi fagaðilum, og hefur mannauðsstjóri og núverandi starfsmenn Vinnueftirlitsins sem komu að málinu með beinum hætti náð sáttum sín á milli.

Það er vilji allra aðila, bæði mannauðsstjórans og viðkomandi starfsmanna Vinnueftirlitsins, að málið hafi engin neikvæð áhrif til framtíðar.

Er litið svo á að málinu sé þar með lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert