Reiðubúin að vera í rafrænum samskiptum við SÍ

Sjúkraþjálfarar tilkynntu í gær að þeir hefðu sagt sig frá …
Sjúkraþjálfarar tilkynntu í gær að þeir hefðu sagt sig frá samningi við Sjúkratryggingar og væru hættir að hafa milligöngu um niðurgreiðslu ríkisins á sjúkraþjálfun. mbl.is/Hjörtur

Sjúkraþjálfarar lýstu því yfir strax í upphafi að þeir væru tilbúnir til að vera í rafrænum samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) varðandi endurgreiðsluhluta skjólstæðings. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi sjúkraþjálfara þar sem fullyrðingum Maríu Heimisdóttur, forstjóra SÍ, í kvöldfréttum RÚV í gær er mótmælt harðlega. Í fréttum RÚV í gær sagði María meðal annars að sjúkraþjálfarar beittu sjúklingum fyrir sig í deilunni. 

Sjúkraþjálfarar tilkynntu í gær að þeir hefðu sagt sig frá samningi við SÍ og væru hættir að hafa milligöngu um niðurgreiðslu ríkisins á sjúkraþjálfun. 

Fram kemur í yfirlýsingunni, sem Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara undirritar, að svo að rafræn samskipti sjúkraþjálfara og SÍ séu möguleg utan samnings þurfi SÍ að óska eftir því við ráðherra að setja reglugerð um slíkt. „En það hefur ekki verið gert. Það er því á ábyrgð SÍ og ráðherra að rafræn samskipti eru ekki möguleg,“ segir í yfirlýsingunni. 

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. Ljósmynd/Aðsend

Sam­skipti sjúkraþjálf­ara og Sjúkra­trygg­inga Íslands (SÍ) eru í upp­námi eft­ir að stofn­un­in til­kynnti á föstu­dag að sjúkraþjálf­ar­ar væru bundn­ir af ákvæðum ramma­samn­ings næstu sex mánuði — þrátt fyr­ir að samn­ing­ur­inn hefði runnið út 31. janú­ar síðastliðinn. Sjúkraþjálfarar segjast ekki vera að hunsa gildandi samning við SÍ. 

Í yfirlýsingu félagsins sem birt er á heimasíðu Félags sjúkraþjálfara í dag segir að Félag sjúkraþjálfara hafi ekki gefið út neina gjaldskrá til notkunar fyrir félagsmenn sína, líkt og Unnur ítrekaði í samtali við mbl.is í gær. 

„Félag sjúkraþjálfara harmar að forstjóri SÍ fari niður á það plan að fara fram með rangfærslum og hótunum gagnvart heilbrigðisstétt, sem er í fullum rétti til að verja sitt starfsumhverfi með því að starfa ekki samkvæmt löngu útrunnum samningi við stofnunina,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert