Uppstokkun í nefnd um upplýsingamál

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað nýja nefndarmenn í úrskurðarnefnd um upplýsingamál í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Nefndina skipa Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, og Sigríður Árnadóttir, aðstoðarsaksóknari hjá héraðssaksóknara.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands..

Skipunartími nefndarinnar er frá 19. nóvember 2019 og er í fjögur ár. Hafsteinn Þór verður formaður nefndarinnar og Kjartan Bjarni verður varaformaður.

Elín Ósk Helgadóttir lögfræðingur, Sigurveig Jónsdóttir, fyrrverandi fréttamaður, og Símon Sigvaldason, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur eru skipuð varamenn í nefndinni.

Friðgeir Björnsson fyrrverandi dómsstjóri lætur af störfum í nefndinni en hann hefur setið í henni síðan 1. janúar 2005.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem skipað er til hliðar við hið almenna stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Forsætisráðuneytið veitir nefndinni ritara- og skrifstofuþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert