Gögn ekki gjaldfrjáls nema fjármagn komi til

Í skólastofu. Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði …
Í skólastofu. Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði á brott ákvæði grunnskólalaga um að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn eins og ritföng og pappír. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samband íslenskra sveitarfélaga leggst gegn því að sveitarfélögunum verði gert skylt að greiða fyrir námsgögn grunnskólanemenda, nema ríkið leggi þeim til fjármagn vegna þess. Þetta kemur fram í umsögn sambandsins um frumvarp þar sem lagt er til að grunnskólalögum verði breytt á þann veg að sveitarfélögin leggi nemendum til öll námsgögn.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins þar sem lagt er til að fellt verði á brott ákvæði grunnskólalaga um að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn eins og ritföng og pappír. Aðrir flutningsmenn eru þingmenn VG, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins.

Í greinargerð frumvarpsins segir að talsverð umræða hafi verið um kostnaðarþátttöku foreldra vegna skólagagna barna, m.a. voru Barnaheill með undirskriftasöfnun fyrir nokkrum árum til að mótmæla gjaldtökunni þar sem samtökin töldu hana stangast á við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun. Þá er kostnaður afar mismunandi eftir sveitarfélögum og einstaka skólum og sýndi könnun að kostnaðurinn gæti verið á bilinu 400 — 22.000 krónur.

Segja lagalega skyldu sveitarfélaganna ljósa

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að þessar röksemdir eigi fyllilega rétt á sér. „En eins og fram hefur komið er lagaleg skylda sveitarfélaganna ljós,“ segir í umsögninni og þar segir að allar tillögur að breytingum, sem muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, verði að kostnaðarmeta frá grunni. Bent er á að sveitarfélögin séu sjálfstæð stjórnvöld með sjálfstæða tekjustofna og sjálfstætt vald, innan ramma laganna, til að taka ákvarðanir um ráðstöfun þeirra. Þá er bent á að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum kostnaði þegar sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna árið 1996.

„Verði ákvörðun tekin um að auka útgjöld sveitarfélaga með lagaboði er Ijóst að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða og óvissa er um hvort að fjármagn fylgi með frá ríkinu. Sambandi leggst því gegn samþykkt frumvarpsins nema tryggt verði að sveitarfélögunum verði bættur sá kostnaðarauki sem af því hlýst,“ segir í umsögninni.

Myndi kosta Hafnarfjörð 20-30 milljónir

Við svipaðan tón kveður í umsögn Hafnarfjarðarbæjar um frumvarpið. Þar segir að fræðsluráð bæjarins leggi áherslu á að lagasetningunni fylgi fjármagn til sveitarfélaganna.  „Lagabreytingin hefur í för með sé auknar íþyngjandi kröfur á sveitarfélög sem myndi auka útgjöld bæjarfélags á stærð við Hafnarfjörð um 20-30 milljónir á ársgrundvelli. Slíkum lagasetningum þarf að fylgja fjármagn,“ segir í umsögn Hafnarfjarðarbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert