Orkuveitan skuldi neytendum mögulega milljarða

Neytendasamtökin segjast „skora á stjórn Orkuveitunnar og kjörna fulltrúa eigenda …
Neytendasamtökin segjast „skora á stjórn Orkuveitunnar og kjörna fulltrúa eigenda að skoða málið í kjölinn, krefja stjórnendur svara og tryggja að fyrirtækið endurgreiði notendum vatnsveitunnar oftekin vatnsgjöld undanfarinna ára.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Neytendasamtökin segja að Orkuveita Reykjavíkur (OR) gæti mögulega hafa innheimt vatnsgjöld sem nema milljörðum króna undanfarin ár, umfram það sem lög leyfa, þar sem OR hefur greitt eigendum sínum arð. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef samtakanna í dag.

Þar segir að Neytendasamtökin hafi sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu fyrirspurn um heimild OR til að greiða út arð og hvernig fjármagnskostnaður skyldi reiknaður. Svarið barst í dag og er skýrt, að mati samtakanna.

„Það er mat ráðuneytisins að sveitarfélögum er óheimilt að greiða sér arð úr rekstri vatnsveitna. (…) Það er mat ráðuneytisins að hugtakið „fjármagnskostnaður“ í skilningi 10. gr. laga [um vatnsveitur sveitarfélaga], verður ekki túlkað með þeim hætti að það geti náð yfir áætlaðan kostnað/arðsemiskröfu sveitarfélaga af bundnu eigin fé í vatnsveitum,“ segir í svari ráðuneytisins.

Neytendasamtökin segjast „skora á stjórn Orkuveitunnar og kjörna fulltrúa eigenda að skoða málið í kjölinn, krefja stjórnendur svara og tryggja að fyrirtækið endurgreiði notendum vatnsveitunnar oftekin vatnsgjöld undanfarinna ára.“

Orkuveita Reykjavíkur er að mestu í eigu Reykjavíkurborgar, en einnig eiga Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit hlut í fyrirtækinu.

Úrskurður kveðinn upp í vor

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kvað upp úrskurð í vor um að álagning OR á vatnsgjald ársins 2016 hefði verið ólögmæt. Í kjölfarið endurgreiddu Veitur um 500 milljónir króna til um 50.000 viðskiptavina sinna.

Neytendastofa telur að ljóst sé af úrskurðinum sem féll í vor að OR hafi oftekið vatnsgjöld mörg undanfarin ár, en ekki bara árið 2016. Árið 2016 hafi oftakan svo verið meiri en þau 2% sem endurgreidd voru.

Í kjölfar þessa hafa Neytendasamtökin sett sig í samband við OR, en fengið þaðan „ákaflega loðin og óljós“ svör og segja samtökin að OR hafi hafnað „að svara frekari spurningum og samstarfi svo hægt væri að varpa ljósi á málið.“

„Eftir standa ókannaðar vísbendingar um að OR gæti hafa oftekið vatnsgjöld sem hugsanlega nema milljörðum króna,“ segja Neytendasamtökin, sem mælast til þess að eftirfarandi atriði verði tekin til skoðunar:

  • Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal gjaldskrá taka mið af meðalkostnaði við að veita þjónustuna. Þá megi telja til stofn- og fjármagnskostnað vegna fyrirhugaðra framkvæmda samkvæmt langtímaáætlunum. Svör OR eru á þá leið að þessar langtímaáætlanir séu ekki til. Þar sem þessi gögn er ekki að finna er OR óheimilt að reikna fjármagnsgjöld inn í vatnsgjaldið eins og fyrirtækið hefur gert undanfarin ár.

  • Í úrskurði samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins segir meðal annars að arðsemi Veitna vegna vatnsveitu „…umfram fjármagnskostnað sé að lágmarki 2%.“ Samt sem áður ákveða Veitur að greiða einungis 2% til baka. Neytendasamtökin fengu ekki svör þegar kallað var eftir rökstuðningi OR við því að einungis væri miðað við lágmarkið en ekki fundin út raunveruleg oftaka.

  • Í ársreikningi ársins 2018 kemur fram að OR hafi greitt eigendum sínum tveggja milljarða króna arð. Það er óheimilt samkvæmt minnisblaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um Gjaldskrár vatnsveitna frá 25.10.2019.

  • Í svörum OR kemur fram að félagið telji sér heimilt að miða við arðsemismarkmið eigenda í útreikningi gjaldskrá vatnsgjalds. Það er óheimilt samkvæmt minnisblaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um Gjaldskrár vatnsveitna frá 25.10.2019.

  • Samkvæmt svörum OR hefur enginn óháður aðili eftirlit með lögmæti gjaldskrár OR eða sannreynir að vatnsgjaldið sem nú sé verið að innheimta sé lögum samkvæmt. Þá hefur fyrirtækið ekki leitað eftir slíkri aðstoð og höfnuðu boði Neytendasamtakanna um aðstoð við að koma því á. 

  • Samkvæmt ársreikningum félagsins var hagnaður áranna:

    2018, 2,8 milljarðar króna,

    2017, 3,4 milljarðar króna,

    2016, 3,5 milljarðar króna,

    2015, 2,6 milljarðar króna,

    2014, 2,6 milljarðar króna,

    Hagnaður OR á tímabilinu nemur alls 14,9 milljörðum króna og ljóst að oftekin vatnsgjöld eru að líkindum meginstofn þessa hagnaðar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert