Vill auka alþjóðlega samvinnu um kennaramenntun

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp á aðalráðstefnu UNESCO …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp á aðalráðstefnu UNESCO í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Áhersla okkar í framboði til setu í framkvæmdastjórn UNESCO er meðal annars á mikilvægi menntaðra og hæfra kennara og við viljum stuðla að því að fjölga þeim og auka alþjóðlega samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum. Þá er virk þátttaka nemenda lykilatriði.“ Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í ávarpi á aðalráðstefnu framkvæmdastjórnar Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) í dag.

Tilkynnt hefur verið um framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn stofnunarinnar 2021-2025. Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála.

„Í þessum áherslum kemur skýrt fram að menntamál eru velferðarmál og að menntun stuðlar að efnahagslegri velsæld. Markviss alþjóðleg samvinna er lykillinn að því að mæta flóknum sameiginlegum áskorunum okkar tíma, því skilningur og lausn vandamála veltur að stórum hluta á menntun og menningarlæsi – færninni til að nema, skilja og virða ólíka menningarheima,“ sagði hún ennfremur. 

Á aðalráðstefnunni var samþykktur samningur um gagnkvæma viðurkenningu námsgráða á háskólastigi á heimsvísu. Með síauknum hreyfanleika stúdenta og vinnuafls hefur þörfin fyrir samræmdar reglur um viðurkenningu háskólanáms þvert á heimsálfur aukist. Samningurinn mun auðvelda nemendum, kennurum, vísindamönnum og borgurum almennt að fá menntun sína viðurkennda til frekari náms eða starfa í löndum sem eiga aðild að UNESCO og fullgilt hafa samninginn. Alls eiga 193 lönd aðild að UNESCO. 

Í nýrri stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 leggur Ísland upp með það meginmarkmið að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert