Hafa með sér samráð gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, Sigríður …
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, Sigríður Björg Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og Snorri Olsen, ríkisskattstjóri við undirritunina í Ráðherrabústaðnum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði hafa gert með sér samkomulag um formlegt samstarf og samráð gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðsins, en samkomulagið var gert að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra.

„Markmið samningsins er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði lúti þeim lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Samvinna stjórnvalda er mikilvæg við að stöðva brot­a­starf­semi á vinnu­markaði hvort sem um er að ræða fé­lags­leg und­ir­boð eða ann­ars kon­ar brot í ljósi sam­eig­in­legra hags­muna launa­fólks, at­vinnu­lífs­ins og sam­fé­lags­ins alls,“ er haft eftir Ásmundi Einar í fréttinni.

Í lífskjarasamningnum er kveðið á um að þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði, þ.e. lögregla, ríkisskattstjóri, Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun, geri með sér samkomulag og undurrituðu forstöðumenn stofnananna fjögurra samstarfssamninginn í Ráðherrabústanum í dag.

Eru þessir aðilar sammála um að hér á landi „megi ekki viðgangast að réttindi launafólks væru virt af vettugi. Slíkt grefur undan heilbrigðum vinnumarkaði og er engum til framdráttar, hvorki atvinnulífinu sjálfu né samfélaginu,“ segir í fréttinni.

Hópnum er ætlað að vinna saman að eftirliti á vinnumarkaði á grundvelli þeirra heimilda sem hvert stjórnvald fyrir sig fer með lögum samkvæmt, ekki síst í forvarnarskyni. Þá er hópnum einnig ætlað að bregðast við og vinna náið með öðrum viðbragðsaðilum eftir því sem við á. Má þar nefna framkvæmdateymi um velferðarþjónustu við þolendur mansals, Útlendingastofnun, Tollstjóra og því sveitarfélagi sem í hlut á hverju sinni, komi upp grunur um brot á vinnumarkaði. 

Næstu skref hins nýstofnaða samstarfsvettvangs er að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins um frekara samstarf til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert