Ríkið sýknað af kröfu Annþórs

Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Þeir …
Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Þeir Annþór og Börkur voru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða hans, en síðar sýknaðir. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenska ríkið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknað af kröfu Annþórs Karlssonar um 64,1 milljónar króna bótagreiðslu auk vaxta. Annþór var vistaður á öryggisgangi fangelsisins á Litla-Hrauni í 541 dag í kjölfar þess að hafa verið ákærður, ásamt Berki Birkissyni, fyrir að hafa árið 2012 banað samfanga þeirra, Sigurði Hólm.

Þeir Annþór og Börkur voru hins vegar sýknaðir í Hæstarétti 9. mars 2017 og höfðaði Annþór í kjölfarið mál gegn ríkinu.

Krafðist Annþór meðal annars miskabóta vegna „óvæginnar“ fjölmiðlaumfjöllunar sem forsvarsmenn Fangelsismálastofnunar hefðu ýtt undir, að því er segir í dómi. Þar er bent á að ekki hafi verið bent á hvaða ummæli hafi verið átt við og að málatilbúnaður hafi verið svo „óglöggur og ónákvæmur að ekki sé unnt að leggja efnisdóm á hann“.

Þá segir einnig að ákvarðanir fangelsisyfirvalda um vistun Annþórs á umræddum gangi hafi „alfarið“ verið byggðar á ákvæðum þágildandi laga og teknar á „grundvelli sjónarmiða um öryggi og allsherjarreglu í fangelsinu“. Jafnframt er rökum um að „rannsóknaraðilar eða ákæruvaldið hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi eða ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu“ Annþórs vísað á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert