Sjúkraþjálfun Íslands flytur

Sjúkraþjálfun Íslands.
Sjúkraþjálfun Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Sjúkraþjálfun Íslands er á förum úr Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut þar sem starfsemin hefur verið undanfarin ár. Þetta kom fram í samtali við Ólaf Þór Guðbjartsson framkvæmdastjóra, sem sagði að auk Sjúkraþjálfunar Íslands flytji stofur og skurðstofur 20 bæklunarlækna auk myndgreiningarþjónustu. 

Starfsemin flyst á tvo staði, á þriðju hæðina í Kringlunni og að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi, þar sem miklar framkvæmdir eiga sér nú stað. Hluti starfseminnar er þegar fluttur í Kringluna þar sem 15 sjúkraþjálfarar starfa auk tveggja kírópraktora, en sjúkraþjálfarar, læknar, skurðstofur og myndgreining flytja í Urðarhvarf upp úr næstu áramótum. Sjúkraþjálfurum sem vinna hjá félaginu mun með þessu fjölga úr 24 í 42.

Í Kringlunni verður lögð áhersla á að fólk með stoðkerfisvanda fái lausn sinna mála en auk sjúkraþjálfara og kírópraktora verður þar fyrirtækið „Eins og fætur toga“ sem mun bjóða upp á göngugreiningu og vörur fyrir hlaupara og vörur tengdar hreyfingu. Má segja að hæðin verði eins konar heilsuhæð að sögn Ólafs.

Ólafur sagði starfsemi eins og þá sem er að finna í Orkuhúsinu eina sinnar tegundar hér á landi en hún sé þekkt á Norðurlöndunum. Með þessum breytingum sé verið að stórauka þjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins en mikil þörf hafi verið á þjónustu af þessu tagi. Á báðum stöðum verði stórbætt æfingaaðstaða þar sem hægt verði að fylgja fólki alla leið í endurhæfingunni og bæta við þriðja stiginu í því ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert