Rengjum ekki upplifun fólks af ofbeldi

Þórdís Rúnarsdóttir, sérfræðingur í málefnum barna og Eyrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri …
Þórdís Rúnarsdóttir, sérfræðingur í málefnum barna og Eyrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, segja forræðisdeildur oft flóknar og misskilnings gæti um hlutverk og aðferðirnar sem eru notaðar við vinnslu þessara mála Eggert Jóhannesson

Um 600 ágreiningsmál koma til meðferðar hjá sáttameðferðarteymi embættis Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu ár hvert. „Þetta eru gríðarlega flókin mál og í þjóðfélagsumræðunni er gjarnan blandað saman í hvaða farvegi þau eiga að vera. Við upplifum oft að það sé mikill misskilningur í gangi um hlutverk og aðferðirnar sem eru notaðar við vinnslu þessara mála sem getur verið dapurlegt því hér á sér stað mikil og gagnleg vinna,“ segir Þórdís Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi, sáttamaður og sérfræðingur í málefnum barna sem jafnframt er fagstjóri í sáttamiðlun og sérfræðiráðgjöf hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. 

Undanfarið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undirskriftasöfnunin Líf án ofbeldis og fullyrða forsvarsmenn hennar að það sé regla frekar en undantekning að mæðrum sem greina frá ofbeldi sé ekki trúað og þeim gert ókleift að vernda börnin sín. Fullyrðingar um tálmun annars foreldrisins hafa einnig oft ratað í fjölmiðla og hefur Félag um foreldrajafnrétti m.a. verið duglegt að tjá sig um þau mál.

Þær Þórdís og Eyrún Guðmundsdóttir lögfræðingur og sviðsstjóri fjölskyldusviðs Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, settust niður með blaðamanni mbl.is og ræddu umgengnismál, tálmanir og áhrif þessa á börnin.

Þó þeim Þórdísi og Eyrúnu sé óheimilt að ræða einstök mál vilja þær engu að síður  leiðrétta þann misskilning að stríður straumur tálmunarmála streymi til embættisins og að ásakanir um ofbeldi séu ekki teknar alvarlega.

„Raunveruleg tálmunarmál eru mjög fá,“ segir Þórdís. „Ásakanir um ofbeldi eru líka teknar alvarlega og slík mál rannsökuð. Það er hins vegar mjög mismunandi hvað fólk leggur í orðið ofbeldi.“

Um 600 ágreiningsmál koma til meðferðar hjá sáttameðferðarteymi embættis Sýslumannsins …
Um 600 ágreiningsmál koma til meðferðar hjá sáttameðferðarteymi embættis Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu ár hvert. Ljósmynd/Getty images

Hlutverk sáttamanns að skapa aðstæður fyrir umræður

Þeir starfsmenn sýslumanns sem eru með til meðferðar mál út af umgengni og forsjá starfa á fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Það eru lögfræðingar sviðsins, 11 talsins og einnig teymi sérfræðinga í málefnum barna sem starfa sem slíkir fyrir öll sýslumannsembættin í landinu. Það eru fimm starfsmenn í fjórum stöðugildum og er einn þeirra er með starfsstöð á Akureyri. 

Málin 600 sem koma til sérfræðinga sýslumanns árlega  eru annarsvegar 450-500 mál þar sem sáttameðferðar er þörf, og hinsvegar mál þar sem þarf að eiga viðtöl við börn, veita liðsinni og vinna umsagnir og álit í málum þar sem verið er að skoða hvort takmarka eigi umgengni eða hvort heimila eigi umgengni yfirhöfuð. Málin eru ólík að uppruna og eru ýmist umgengnismál, forsjármál, lögheimilismál og dagsektarmál.

Í sáttameðferð lýsir fólk upplifunum sínum m.a. af  andlegu-, líkamlegu-, fjárhagslegu-,  kynferðislegu- , stafrænu og félagslegu ofbeldi. „Við sáttamenn rengjum ekki upplifun fólks af ofbeldi eða rökræðum hana“, segir Þórdís. „Í sáttameðferðinni er sáttaaðilinn hlutlaus þriðji aðili sem hefur ekki áhrif á það sem gerist. Hans hlutverk er að reyna að skapa þær aðstæður að foreldrarnir geti talað saman.“

Einstaklingur sem í slíkri sáttameðferð greini frá ofbeldi sem hann telji sig hafa orðið fyrir geti því upplifað að hann hafi ekki fengið staðfestingu á að ofbeldið hafi átt sér stað. „Við erum samt alltaf að reyna að vanda okkur, til dæmis varðandi viðtalstækni með því að sáttamaður láti viðkomandi vita að hann meðtekur það sem sagt er.“ Hún bætir við að sáttamaðurinn þurfi að getað rúmað tvo sannleika jafnvel þó þeir séu andstæðir.

Við rannsókn máls sem er komið í úrskurðarferli, eftir að sáttameðferð er lokið, er  það tekið alvarlega haldi einhver því fram að hann sé beittur ofbeldi eða hafi verið beittur ofbeldi. „Í  úrskurðarferlinu ber sýslumanni  að rannsaka mál til að leiða í ljós þau atvik máls sem hafa áhrif við töku ákvörðunar um umgengni. Hluti af rannsókn máls getur þannig verið að spyrja krefjandi og erfiðra spurninga jafnvel þó að málin séu svo viðkvæm sem raun ber vitni. segir Eyrún.

Það kunni hins vegar að vera erfitt fyrir fólk að átta sig á þeirri ólíku nálgun sem sé annarsvegar í sáttaferli, þar sem sáttamaður tekur ekki afstöðu, og í því ferli sem lýkur með úrskurði sýslumanns.

Þórdís ítrekar að það sé ekki hlutverk sáttamannsins að hafa skoðun á samtalinu. „Hans hlutverk er að reyna að stýra því þannig það sé uppbyggilegt og ferlið ýti undir breytingu á hegðun,“ segir hún. Samtalið getur þá stuðlað að því að gerandinn, fái innsæi í það hvernig hegðun hans hafi haft áhrif á þolanda og átt þátt í að skapa núverandi aðstæður. „Ef vel tekst til þá fær viðkomandi innsæi sem getur stuðlað að breytingum og ef til vill samkomulagi sem barn og foreldrar geta við unað.“

Hagsmunir barnsins eru alltaf í fyrirrúmi þegar úrskurðað er um …
Hagsmunir barnsins eru alltaf í fyrirrúmi þegar úrskurðað er um umgengni barns og komi fram ásakanir um ofbeldi er brugðist við þeim með rannsókn. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sáttin ekki alltaf möguleg

Eyrún samsinnir þessu, en bendir svo á að í sumum tilfellum sé slíkt útilokað. „Það getur verið út af alvarleika þess ofbeldis sem var um að ræða og þá er kannski ekki einu sinni hægt að reyna sátt.“

Slíkt er jafnan virt  og láti kona, sem boðuð hefur verið í sáttameðferð, vita að hún sé að koma úr ofbeldissambandi og ferlið geti reynst henni erfitt þá er henni boðið að mæta einni. Auk þess getur hún hafnað sáttameðferðinni alfarið þar sem alvarleiki þess sem á undan er gengið sé slíkur að enginn grundvöllur sé fyrir sátt. „Þá er orðið við því“ bætir Þórdís við.

Hún segir það þó mögulega geta valdið ruglingi hjá einhverjum þegar á síðari stigum málsins  sáttamaðurinn setur á sig annan hatt og tekur til við að skrifa umsögn um sama mál sem sérfræðingur í málefnum barna. „Þar er hann í öðru hlutverki og þarf að taka afstöðu og meta stöðuna. Ég held að fólk rugli þessu því miður sama þó að við reynum að útskýra málið.“

Eyrún samsinnir og spurð hvort heppilegra væri að þessum ólíku hlutverkum væri ekki sinnt af sama einstaklingi kveðst hún telja að svo væri. „Við reynum að stýra því þannig að það gerist ekki, en það er ekki alltaf hægt,“ útskýrir hún.

Þórdís bendir þá á að einnig séu dæmi um að foreldrar óski þess að sami sérfræðingur vinni umsögnina líka. „Þó ekki náist sátt getur samt myndast þannig traust að fólk óski eftir þessu svo ekki þurfi að endurtaka málið og þá reynum við að verða við því,“ segir hún.

Skylt að bregðast við ótryggum aðstæðum

Þó sáttamenn eigi að viðhalda hlutleysi segir Eyrún þeim og öðrum starfsmönnum  engu að síður rétt og skylt að bregðast við verði þeir þess áskynja að aðstæður séu ótryggar eða jafnvel  hættulegar, eða ef samtalið einkennist af valdaójafnvægi. „Í málum sumra ofbeldismanna getur ástandið orðið hættulegra þegar farið er að hreyfa við hlutunum,“ segir hún. Í slíkum tilfellum eru konurnar spurðar út í stuðningsnet sitt og þeim bent á úrræði eins og Bjarkarhlíð og lögreglu. Stundum afhjúpast líka að aðstæður barns eru með þeim hætti að send er tilkynning til barnaverndar.

Það er alltaf okkar markmið að minnka þjáningar barna og foreldra,“ bætir Þórdís við.

Spurðar hvort að mikið sé um mál þar sem öðru foreldrinu er bannað að hafa samband við barnið segir Eyrún slíka úrskurði vissulega vera kveðna upp, en þeir séu ekki margir.

„Þetta eru fá tilvik þar sem umgengnin er engin en svo eru líka tilvik þar sem umgengnin er mjög lítil. Það getur t.d. verið einhverjar klukkustundir undir eftirliti 1-2 sinnum í mánuði, eða úrskurður til dæmis bara um umgengni að degi til. Þetta er mjög takmörkuð umgengni sem er tilkomin út af einhverjum ástæðum í því tiltekna máli,“ bætir hún við. Ekki eigi heldur að ganga lengra í að takmarka umgengni en talið sé nauðsynlegt út frá hagsmunum barnsins.

„Fyrirfram er gengið út frá því að það sé nauðsynlegt fyrir barnið að hafa tengsl við foreldri sitt og það er ekki skert nema fyrir því séu gild rök.“

Einstaklingi sem er að koma úr ofbeldissambandi er heimilt að …
Einstaklingi sem er að koma úr ofbeldissambandi er heimilt að hafna sáttameðferðinni, en er þó líka boðið að mæta einn í viðtöl. Ljósmynd / Getty Images

Sjá aðstæðurnar fyrir sér verri en þær eru

Þórdís bendir á að börn takist mismunandi á við hlutina og sumum börnum finnist betra að viðhalda einhverju sambandi við foreldri þrátt fyrir að mögulega sé um brota eða óreglu einstakling að ræða. Þannig sé þekkt að börn geta ímyndað sér hluti sem eru jafnvel verri en raunveruleikinn og getur það aukið álag á barnið.  

„Það þarf að hjálpa barninu að takast á við aðstæður sínar eins og því einstaka barni hentar best. Frá sjónarhóli barnsins og út frá hagsmunum þess getur takmörkuð umgengni verið jákvæð jafnvel þó foreldri glími við erfiðar aðstæður,“ segir hún.

Hagsmunir barnsins eru enda alltaf í fyrirrúmi þegar úrskurðað er um umgengni barns og komi fram ásakanir um ofbeldi er brugðist við þeim með rannsókn. Hún getur m.a. falið í sér viðtöl við bæði börn og foreldra, öflun umsagnar sérfræðings í málefnum barna um hvað sé barninu fyrir bestu og gagnaöflun frá foreldrum. Einnig kann að vera aflað gagna eftir því sem við á frá lögreglu, barnavernd, skólum, læknum og öðrum sérfræðingum og endurhæfingar- og meðferðarstofnunum.

Mat sýslumanns á ofbeldishættu ræðst svo að þeirra sögn af heildstæðu mati á öllum gögnum málsins. Þannig getur sýslumaður til að mynda metið stöðuna svo að ofbeldishætta sé fyrir hendi, þó umgengnisforeldri hafi ekki hlotið dóm.

Tálmunarmál eru fá

Tálmunarmál eru heldur ekki fleiri hundruð eins og stundum er látið í veðri vaka. „Tálmunarmál eru fá,“ segir Þórdís. Með tálmunarmálum á hún við mál þar sem búsetuforeldrið hindrar til langs tíma alla umgengni barns við umgengnisforeldri án þess að fyrir því liggi nein haldbær rök.

„Í orðræðunni um að tálma umgengni myndum við oftast frekar lýsa því þannig að það sé ágreiningur um hve umgengni eigi að vera mikil,“ útskýrir Eyrún. „Í þeim málum er umgengni við barnið, en hún er með öðrum hætti en viðkomandi mundi vilja haga málum.“ Nefnir hún sem dæmi að vilji foreldris kunni þannig að standa til þess að fá lengri helgar, eða hafa barnið aðra hverja viku. „Þarna er umgengni, en ágreiningurinn snýr um dagafjölda.  Þetta köllum við ekki að tálma umgengni.“

Hér skiptir afstaða barnsins máli. „Þau geta kannski ekki útskýrt það ítarlega en þau vilja bara vera aðeins meira eða minna hjá öðru foreldrinu. Þegar foreldrarnir eru svo ekki tilbúin að hlusta á þetta þá er öðru foreldrinu gert að hafa haft áhrif á barnið og fullyrt að foreldrið sé að tálma,“ segir Þórdís. Í slíkum málum geti tálmunarskilgreining foreldrisins jafnvel verið spurningu um einn dag í viku.

„Þetta eru flókin marglaga mál sem hafa í það minnsta þrjár hliðar (faðir, móðir, barn) það er mikil einföldun að ímynda sér að staðan sé aðeins öðrum aðilanum „að kenna“ eða að afstaða barns sé innrætt af öðru foreldrinu. Allt eins getur verið um að ræða viðleitni barns til að bera umhyggju fyrir sjálfu sér í stöðunni. Ósk eða afstaða barns getur þannig  átt rætur í tillitssemi gagnvart umönnunaraðila sínum og þannig um leið verið sjálfsprottin sjálfsbjargarviðleitni. Það er ekki til neinn einn fullkominn strúktúr til að vinna þessi mál. Það er vandað til verka hjá sýslumanni en verkin eru sannarlega ekki hafin yfir gagnrýni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert