Brotin markvisst niður til að byggja upp

Brúarhópur Birnu Margrétar, sem er önnur frá hægri á myndinni.
Brúarhópur Birnu Margrétar, sem er önnur frá hægri á myndinni. Ljósmynd/Aðsend

Birna Margrét Haukdal Jakobsdóttir, fyrsta árs nemandi í nýsköpun og verkefnastjórnun við háskólann í Østfold í Noregi, hefur farið fyrir skólasystkinum sínum í verkefnum að undanförnu og sigrað þrívegis í keppni.

Nýjasta afrekið er brúarsmíði yfir vatnið Börtevann, sem er á milli Fredrikstad og Sarpsborgar. Birna segir að verkefni allra hópanna hafi falist í því að byggja brú á sem skemmstum tíma. „Meira fengum við ekki að vita í fyrstu,“ segir hún og áréttar að engar upplýsingar hafi fengist um efni og stöðu, aðeins að hún ætti að vera 15 til 25 metra löng. Daginn áður en keppnin hófst fengust nánari upplýsingar og þá hófst undirbúningsvinnan undir stjórn Birnu. „Þá máttum við byrja að teikna og eftir að dómnefnd hafði metið öryggi og búnað daginn eftir og veitt samþykki sitt gátum við hafið smíðina.“

Hengibrú var málið

Hópur Birnu ákvað að búa til hengibrú og fékk hann nemendur á fjölmiðlabraut til þess að mynda framganginn. Fjórir staðir komu til greina fyrir brú yfir vatnið og var dregið um hvaða hópur fékk hvaða svæði. „Við fengum erfiðustu leiðina, en vorum vel undirbúin, vorum meðal annars með kajak tilbúinn til þess að draga brúna og flytja turn til þess að festa hana við á hinni hlið vatnsins.“

Allt gekk eins og í sögu nema hvað tröppurnar voru svolítið hálar. „Það var frost og við áttuðum okkur ekki á áhrifum þess á tröppurnar eftir að hafa dregið brúna yfir vatnið en leystum úr því,“ segir Birna. Bætir við að síðan hafi þau þurft að strekkja á köðlunum og það hafi ekki tekið langan tíma. „Við vorum 100 mínútur að setja 25 metra langa brúna upp og hlaupa yfir hana til baka,“ heldur hún áfram. „Tíminn hefði getað verið betri en ein stelpan var lofthrædd og þorði ekki yfir svo við þurftum að fá annan til þess að hlaupa fyrir hana.“

Áður hafði Birna unnið með nemendum á þriðja ári í velferðarmálum við verkefni sem fólst í því að að leysa vanda ósyndra unglinga í hópi flóttamanna í nýju og breyttu umhverfi. „Við útbjuggum sex vikna sundnámskeið og gerðum ráð fyrir því að sjálfboðaliðar úr hópi eldri fólks yrðu unglingunum til aðstoðar. Með þessu fyrirkomulagi töldum við að krakkarnir aðlöguðust norsku umhverfi best, kynntust öryggi í vatninu, lærðu að tala málið og hefðu eitthvað gott og uppbyggilegt fyrir stafni.“

Nánar er rætt við Birnu Margréti á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert