Læknaráð harmar ítrekaðar þvinganir

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Læknaráð Landspítalans harmar að spítalinn skuli ítrekað vera þvingaður til að grípa til róttækra sparnaðaraðgerða sem muni væntanlega koma niður á þjónustu við sjúklinga.

Fram kemur í ályktun læknaráðsins að aukin fjárþörf Landspítala eigi sér ýmsar orsakir, svo sem aukið umfang þjónustu vegna nýrra verkefna, tilkomu nýrra lyfja og vaxandi fólksfjölda.

„Þó ráðdeild sé nauðsynleg bendir læknaráð á að nægjanlegt fjármagn þarf að fylgja nýjum verkefnum sem Landspítala er úthlutað, en misbrestur hefur verið á því. Einnig þarf að fjármagna kjarasamninga með fullnægjandi hætti en það hljómar ankannalega að 4-5 ára gömlum kjarasamningum við lækna sé endurtekið kennt um hallarekstur Landspítala,“ segir í ályktuninni.

Læknaráð telur einnig óásættanlegt að dregið verði úr fjárveitingum til byggingar nýs Landspítala. Frekar ætti að auka þær og flýta framkvæmdum enda þoli ástandið enga bið.

Frá bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Frá bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breska kerfinu mótmælt

Í annarri ályktun læknaráðsins mótmælir það harðlega breska kerfinu sem Landspítalinn hefur valið að nota til jafnlaunavottunar.

„Þrátt fyrir ítrekuð andmæli og virka upplýsingagjöf af hálfu læknaráðs og læknafélaga hafa stjórnendur spítalans haldið áfram að meta störf lækna með tæki sem tekur hvorki tillit til eðlis læknisstarfsins né menntunarkröfu lækna. Læknar munu hvorki sætta sig við að þeirra sjónarmið verði hunsuð, né að spítalinn fái jafnlaunavottun með þessum hætti, í andstöðu við lækna.“

Læknaráð hvetur yfirstjórn spítalans til að hverfa af þessari braut og nota frekar jafnlaunakerfi sem aðrar íslenskar heilbrigðisstofnanir hafa notað með góðum árangri.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Skipulagsbreytingum hafnað

Loks hafnar læknaráð skipulagsbreytingum forstjóra spítalans sem heilbrigðisráðherra staðfesti í september síðastliðinn og tóku gildi í október.

„Þrátt fyrir staðfestingu ráðherra telur fundurinn nýja skipuritið ekki í samræmi við fagleg sjónarmið og ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu hvað varðar faglega ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga og yfirlækna sérgreina og sérdeilda,“ segir í ályktuninni.

Ráðherra er hvattur til að sjá til þess að skipurit sjúkrahússins fylgi lögum og taki mið af tveimur umsögnum Umboðsmanns Alþingis um stjórnskipulagsmál Landspítala sem birt voru í febrúar 2007 og í byrjun september 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert