„Þetta er ófremdarástand“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður bara vonar að okkur takist að koma þessari kjaradeilu af þeirri óheillabraut sem hún er á. Það eru sameiginlegri hagsmunir okkar að við finnum flöt á þessu og við höfum lagt mikla áherslu á það og að gera þetta ekki erfiðara en það er þegar orðið.“

Þetta segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is um stöðuna í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins. Komið hefur til tveggja verkfalla á netmiðlum undanfarna tvo föstudaga en Hjálmar segir ljóst að talsvert bil þurfi að brúa miðað við hvernig SA hafi brugðist við kröfugerð Blaðamannafélagsins.

„Mér virðist þessi fyrirtæki vera í gíslingu Samtaka atvinnulífsins vegna lífskjarasamningsins sem er það sveigjanlegur að hann rúmar vel að okkar mati mjög hóflega kröfugerð Blaðamannafélagsins,“ segir hann enn fremur.

Fundað verður í deilunni á morgun hjá ríkissáttasemjara klukkan 13:30. Blaðamannafélagið hefur kært meint verkfallsbrot á mbl.is til félagsdóms og verður málið þingfest á morgun að sögn Hjálmars.

„Ég vona bara að félagsdómur bregðist hratt við,“ segir Hjálmar. Spurður hvort hann eigi von á niðurstöðu fyrir næsta boðaða verkfall á föstudaginn segist Hjálmar að það verði að koma í ljóst. Vonandi sem fyrst. „Þetta er ófremdarástand.“

Tekið skal fram að flestir blaðamenn á ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert