„Börn eru best“

„Börn eru best,“ ómaði hátt og snjallt á Skólavörðustígnum í dag þar sem mikill fjöldi barna var samankominn til að minna á réttindi sín í tilefni þess að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur fyrir þrjátíu árum síðan. 

Um 250 börn í öðrum bekk frá frístundaheimilunum Draumalandi við Austurbæjarskóla, Eldflauginni við Hlíðaskóla, Halastjörnunni við Háteigsskóla, Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla og Undralandi við Grandaskóla tóku þátt. 

Gengið var frá Skólavörðuholti og niður í Hafnarhús þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók á móti krökkunum og boðið var upp á skemmtidagskrá.

Í tilkynningu frístundaheimilanna kemur fram að ýmis leiðarstef Barnasáttmálans komi fram í starfi heimilanna:

„Eitt af megin markmiðum frístundaheimilanna er að börnin hafi val um þátttöku og viðfangsefnin í starfinu og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð. Við leggjum mikið upp úr því að hlusta eftir röddum barnanna og því að fá fram skoðanir þeirra á stórum jafnt sem smáum málefnum þannig að þarfir þeirra og óskir leggi grunninn að starfinu sem unnið er. Í réttindavikunni setjum við réttindi barna alveg sérstaklega í brennidepilinn og kennum krökkunum um réttindi barna, barnasáttmálann, lýðræðisleg vinnubrögð og að þekkja muninn á réttindum og forréttindum.

Frístundastarf er kjörinn vettvangur til að vinna með réttindi barna og barnalýðræði, en notast er við verkfæri hins óformlega náms til þess að miðla þekkingunni, m.a. í gegnum leiki og samræður. Barnasáttmálinn fjallar um ýmis mikilvæg réttindi barna, en þeim má í grófum dráttum skipta í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku. Almennur skilningur er á því að börn eigi rétt á umhyggju og vernd, jafnt foreldra sinna sem og samfélagsins alls, enda eru vernd og umhyggja í hugum flestra tengd grunnréttindum barna órjúfanlegum böndum.

Réttur barna til þátttöku og þess að tekið sé tillit til skoðana þeirra á málum er þau varða í samræmi við aldur þeirra og þroska og er hins vegar alla jafna ekki jafn mikið í umræðunni og fólki er kannski ekki jafn tamt að tengja þessi þætti grunnréttindum barna. Með löggildingu barnasáttmálans var réttur barna til þátttöku hins vegar gerður jafnrétthár rétti þeirra til verndar og umhyggju. Á það vilja börnin benda með réttindagöngunni og er þetta verkefni liður í því að styrkja rödd barnanna og gera þau meðvituð um réttindi sín og annarra,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert