Vesturbærinn fyrsta réttindahverfi landsins

Krakkar í Grandaskóla fagna viðurkenningunni.
Krakkar í Grandaskóla fagna viðurkenningunni. Ljósmynd/UNICEF/Steindór

Grunnskólar í Vesturbæ Reykjavíkur, Grandaskóli, Melaskóli, Hagaskóli og Vesturbæjarskóli, ásamt frístundaheimilunum Undralandi, Selinu, Frostheimum og Skýjaborgum og félagsmiðstöðinni Frosta hafa hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF.

UNICEF veitti viðurkenninguna í dag í tilefni af alþjóðadegi barna og 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en með henni er Vesturbær Reykjavíkur orðið fyrsta réttindahverfi landsins þar sem allir skólar þess hafa nú hlotið þessar viðurkenningar.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá UNICEF sem segir „um merkisatburð í menntamálum Reykjavíkurborgar“ að ræða.  Börn, kennarar, starfsfólk og foreldrar í skólunum hafi unnið markvisst við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í sitt starf. „Réttindaráð skólanna hafa hlotið mikið lof fyrir vinnu sína í þágu réttinda barna. Réttindaráð Hagaskóla braut til að mynda blað í sögu íslensks skólastarfs þegar þau stóðu öll sem eitt og mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun skólasystur sinnar úr landi. Þau mótmæli urðu til þess að brottvísuninni var frestað,“ segir í tilkynningunni.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir gleðiefni að geta …
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir gleðiefni að geta veitt viðurkenningarnar á afmælisdegi barnasáttmálans. Ljósmynd/UNICEF: Steindór

Viðurkenningin er nú veitt í annað sinn, en áður höfðu Laugarnesskóli, Frístundaheimilin Laugasel og Dalheimar, Laugalækjarskóli og félagsmiðstöðin Laugó, Flataskóli og frístundaheimilið Krakkakot innleitt Barnasáttmálann í allt starf sitt og verið viðurkennd sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF.

Haft er eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, að það sé gleðiefni að geta veitt viðurkenningarnar á afmælisdegi sáttmálans og að baki liggi þrotlaus vinna allra sem komi að.

„Þessi útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims hefur breytt lífum ótal barna til hins betra. Nú eru forsendur hans orðnar útgangspunktur allra ákvarðana í metnaðarfullu skóla- og frístundastarfi þessara skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvar,“ sagði Bergsteinn.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var viðstaddur allar afhendingarnar  í morgun og kvaðst stoltur borgarstjóri á þessum tímamótum.

„Ég er ótrúlega stoltur af því að skólarnir og frístundastarfsemin í Vesturbænum séu að verða réttindaskólar og réttindafrístund UNICEF. Því það er ekki bara mikilvægt að krakkarnir átti sig á því að þeir hafi réttindi heldur að þau eru svo virkir þátttakendur í verkefnunum,“ sagði Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert