Björgun eða glæpur?

Sarah Mardini og Seán Binder eru ákærð fyrir að bjarga …
Sarah Mardini og Seán Binder eru ákærð fyrir að bjarga mannslífum á grísku eyjunni Lesbos. Ljósmynd Amnesty International

Sarah Mardini og Seán Binder eru sökuð um njósnir, smygl á fólki og að tilheyra glæpa­sam­tökum. Þau voru handtekin í fyrra við að bjarga mannslífum á vegum mannúðarsamtaka á grísku eyjunni Lesbos. Ef þau verða fundin sek eiga þau yfir höfði sér 25 ára fang­elsi.

Mál þeirra er hluti af alþjóðlegri herferð Amnesty International þar sem þrýst er á stjórnvöld víða um heim. Herferðin: Þitt nafn bjargar lífi var formlega sett í Hörpu síðdegis. 

Komið með flóttafólk í land á Lesbos eftir að hafa …
Komið með flóttafólk í land á Lesbos eftir að hafa verið bjargað úr sjávarháska. AFP

Vinna Sarah og Seán fólst í því að koma auga á báta í háska á hafi úti og aðstoða flótta­fólk. Sarah Mardini er 24 ára gömul. Árið 2015 kom hún þessa sömu leið og fólkið sem hún aðstoðaði því hún er ein þeirra fjölmörgu Sýrlendinga sem hafa neyðst til þess að yfirgefa heimalandið vegna stríðsins þar. 

Báturinn, sem Sarah var um borð í, var við að sökkva þegar hún og systir hennar fóru frá borði og drógu bátinn að landi á Lesbos og björguðu þannig öllum um borð, tæplega 20 manns. Sarah býr í Þýskalandi en Seán Binder, sem er 25 ára, er búsettur á Írlandi en með þýskan ríkisborgararétt. Faðir hans kom til Þýskalands sem flóttamaður frá Víetnam á sínum tíma. Þannig að þau skilja og vita hvað liggur að baki þegar fólk leggur af stað í hættulegt ferðalag til lífs. 

Björgunarvestafjall á Lesbos.
Björgunarvestafjall á Lesbos. mbl.is/Gúna

Staðan á grísku eyjunum er síst betri í dag en hún var árið 2015 þegar mikill fjöldi flóttafólks kom þangað að landi eftir hættulegt ferðalag yfir hafið. Undanfarna mánuði hefur verið þrýst á grísk stjórnvöld að bregðast við ástandinu, ekki síst á Lesbos þar sem þúsundir hafast við í yfirfullum flóttamannabúðum, Moria.

Ætla að herða aðgerðir gagnvart flóttafólki

Í gær tilkynntu grísk stjórnvöld um aðgerðaráætlun sem miðar að því að flytja fólk úr flóttamannabúðum á eyjunum í Eyjahafi og herða eftirlit á landamærum þar sem þau óttast að von sé á miklum fjölda hælisleitenda frá Tyrklandi. Ekki síst vegna ítrekaða hótana Tyrklandsforseta um að opna landamærin til Evrópu. 

Alkiviadis Stefanis, sem með samræmingarmál þegar kemur að flóttafólki og hælisleitendum á Grikklandi, segir að það sé forgangsmál hjá stjórnvöldum að flytja hælisleitendur frá eyjunum í Eyjahafi. Stefnt er að því að búið verði að flytja 20 þúsund flóttamenn frá eyjunum til meginlandsins snemma á næsta ári. Af þeim verður 15 þúsund komið fyrir í flóttamannabúðum en 5 þúsund á hótelum.

Er sagan að endurtaka sig? Frá Skala Sykamias á grísku …
Er sagan að endurtaka sig? Frá Skala Sykamias á grísku eyjunni Lesbos í október 2019. AFP

Stefanis, sem er aðstoðarvarnarmálaráðherra, segir að ríkisstjórnin ætli að ráða 400 landamæraverði til viðbótar á landamærum landsins við Tyrkland og 800 landamæraverðir til viðbótar verði sendir á eyjarnar í Eyjahafi. 

Þremur flóttamannabúðum verður lokað á Lesbos, Chios og Samos en alls eru yfir 27 þúsund flóttamenn í búðunum þremur í dag. Búðirnar sem um ræðir er ætlað að hýsa 4.500 manns og því ástandið þar afar slæmt. Ekki síst hvað varðar hreinlæti. 

Gríska ríkisstjórnin ætlar þess í stað að setja á laggirnar þrjár skráningarmiðstöðvar á eyjunum og á hver þeirra að geta hýst fimm þúsund manns hið minnsta, mest 7 þúsund. Þar verða flóttamenn skráðir og hýstir á meðan ákvörðun er tekin um framhaldið — hvort þeir fá hæli eða sendir úr landi. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í dag er ætlunin að nýju miðstöðvarnar verði tilbúnar í júlí á næsta ári og til stendur að bæta við 500 starfsmönnum til að hraða skráningu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd.

Læsa fólk inni 

Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos. AFP

Smærri flóttamannabúðum á eyjunum Kos og Leros verður einnig breytt og þær stækkaðar. Jafnframt verður búðunum læsta þannig að í stað þess að fólk geti farið inn og út úr búðunum verða hælisleitendur læstir inni, svona svipað og er gert í fangabúðum, þangað til þeir frá stöðu flóttafólk og sendir til meginlandsins eða ef þeim er synjað um hæli og þá sendir yfir til Tyrklands. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segist fagna því að grísk yfirvöld ætli að grípa til aðgerða en svo lengi sem það er til þess að bæta ástandið á eyjum og mannréttindi fólks séu virt. Í nýju búðunum munu hælisleitendur búa í gámum, hafa aðgang að matsölum, skólum og stöðum til að iðka bænir. 

Samkvæmt tölum grískra stjórnvalda eru yfir 37 þúsund hælisleitendur á eyjunum og á hverjum degi bætast hundruð við. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðlegu fólks­flutn­inga­stofn­un­inni (IOM) eru 22 þúsund flóttamenn í búðum á meginlandinu og eru þær annað hvort yfirfullar eða að nálgast það. 

Stefanis segir að fljótlega verði kynntar breyttar áherslur grískra stjórnvalda þegar kemur að starfi hjálparsamtaka og verður þeim hjálparsamtökum sem ekki uppfylla þau meinað að starfa í landinu. 

Haldið í öryggisfangelsi í 100 daga

Reynt er að halda uppi kennslu fyrir börn í flóttamannabúðum …
Reynt er að halda uppi kennslu fyrir börn í flóttamannabúðum og skýlum á Lesbos. AFP

Sarah Mardini og Seán Binder voru handtekin í ágúst í fyrra og sátu í varðhaldi í 107 daga. Hún í Koryallos fangelsinu fyrir utan Aþenu. Flestir þeirra sem þangað eru sendir hafa verið dæmdir fyrir morð, hryðjuverk og aðra alvarlega glæpi. Þau voru látin laus gegn tryggingu og samkvæmt frétt Guardian 4. desember var tryggingin fyrir Söruh 5 þúsund evrur, rúmar 680 þúsund krónur. Seán var látinn laus sama dag í Chios ásamt tveimur öðrum sjálfboðaliðum sem störfuðu með sömu mannúðarsamtökum og þau.

Getur hent hvern sem er 

AFP

Seán segir að það sem veki honum mestan óhug sé „ekki það að ég var settur í fang­elsi heldur að slíkt geti hent hvern sem er,“ að því er fram kemur á vef Amnesty International á Íslandi en þar er hægt að skrifa undir ákall um lausn þeirra og fleiri einstaklinga.

„Það gerist þegar stjórn­völd gera borgara, sem eru að reyna að bjarga flótta­fólki, að glæpa­mönnum í stað þess að stjórn­völdin sjálf geri meira til að vernda rétt flótta­fólks til að finna öruggan stað. Þegar fólk neyðist til að flýja stríðs­átök, pynt­ingar og aðra illa meðferð í heima­löndum sínum á það oft engan annan kost en að leggja í hættuför til að komast í öruggt skjól,“ segir á vef Amnesty.

AFP

Sarah og Seán urðu vinir vegna þess að þau deila sömu gildum í lífinu. Þau berjast nú saman fyrir því að vera ekki dæmd í fangelsi fyrir að bjarga fólki frá drukknun. Þrátt fyrir að það sé faðir Seán sem er flóttamaður þá segir hann að móðir hans, Fanny Binder, hafi mótað skoðanir hans og lífsviðhorf miklu fremur þegar kemur að flóttafólki. Hún tekur virkan þátt í móttöku flóttafólks á Írlandi en fjölskyldan hefur búið þar frá því Seán var fimm ára gamall.

Hann er menntaður í alþjóðasamskiptum frá Trinity háskólanum í Dublin og hefur líkt og Sarah fengið þjálfun í björgunaraðgerðum. Hún er háskólanemi í Berlín. 

Á árunum 2017-2018 tóku Seán og Sarah þátt í sjálfboðastarfi á Lesbos en 17. febrúar 2018 voru þau stöðvuð af grísku lögreglunni þar sem þau keyrðu með strandlengjunni og fylgdust með bátum sem voru að nálgast land. Afar stutt er á milli Tyrklands og Lesbos, aðeins nokkrir kílómetrar. 

Í búðum við hliðina á Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos.
Í búðum við hliðina á Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos. AFP

Lögreglan handtók þau og hélt þeim í tvo sólarhringa, húsleit var gerð á staðnum þar sem þau bjuggu en þau síðan látin laus 19. febrúar. Í lok júlí lauk rannsókn lögreglu tímabundið og 21. ágúst var Sarah handtekin á flugvellinum í Mytilini á Lesbos. Hún var á leið í flug til Þýskalands þar sem skólinn var að byrja. Í rúma viku var hún í varðhaldi á lögreglustöðinni í Mytilene en síðan flutt í öryggisfangelsið Korydallos.

Seán var handtekinn þegar hann kom á lögreglustöðina í Mytilene til að fá upplýsingar um Söruh og handtökuna. Hann var fluttur í fangelsi á eyjunni Chios þar sem hann var í haldi þangað til 5. desember 2018.

Gríska lögreglan gaf út tilkynningu 28. ágúst 2018 þar sem nokkrir Grikkir og útlendingar, þar á meðal Seán and Sarah, eru sökuð um aðild að glæpasamtökum og fleiri alvarleg brot.

Við Moria-búðirnar á Lesbos.
Við Moria-búðirnar á Lesbos. AFP

Í september hafnaði áfrýjunardómstóll á Lesbos beiðni um að láta þau laus gegn tryggingu. Ástæðan var hversu alvarlegar sakirnar voru. Í sama mánuði greindi yfirmaður grísku strandgæslunnar frá samstarfi þeirra við mannúðarsamtökin sem Seán og Sarah störfuðu með. Að skiptast á upplýsingum um báta sem eru að koma til Lesbos. Að strandgæslan fengi upplýsingar frá fólki eins og Seán og Sarah um báta sem gætu verið í vanda. 

Snemma í desember heimilaði dómstóllinn á Lesbos að þau yrðu látin laus gegn tryggingu. Málið er enn í rannsókn en Sarah býr eins og áður sagði í Berlín og Seán skammt frá Cork. Þegar rannsókn lýkur verður tekin ákvörðun um hvort þau verða ákærð og réttað yfir þeim. Ekki er vitað hvenær sú ákvörðun liggur fyrir. Þannig að þau eru enn í óvissu um hver framtíð þeirra verður.

Sjálfboðaliðar — glæpamenn

Margir hafa fagnað ákaft komunni til grísku eyjarinnar Lesbos.
Margir hafa fagnað ákaft komunni til grísku eyjarinnar Lesbos. AFP

Mál þeirra er ekkert einsdæmi því árið 2016 voru þrír spænskir slökkviliðsmenn og tveir starfsmenn mannúðarsamtaka ákærðir fyrir að bjarga mannslífum við Lesbos. Þeir voru sýknaðir árið 2018 eftir löng og kostnaðarsöm málaferli en málið var fyrir dómstólum í tvö ár. 

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International hefur staða þeirra sem koma að björgun mannslífa í Evrópu versnað undanfarin ár og sífellt oftar er litið á þá sem glæpamenn. Á sama tíma horfi stjórnvöld framhjá því að fólk er að drukkna á flótta, samkvæmt Amnesty. 

Ekki hreyfa ykkur!

Loka á Moria-búðunum á Lesbos.
Loka á Moria-búðunum á Lesbos. AFP

„Setjist niður! Ekki hreyfa ykkur! Haldið ró ykkar!“ er kallað frá björgunarbát til hóps fólks um borð í gúmmíbát á Eyjahafi fyrir nokkrum dögum.

Áhöfn eftirlitsbáts grísku strandgæslunnar kom þarna tæplega 50 flóttamönnum á gúmmíbát til bjargar skammt frá eyjunni Samos. Nokkru áður hafði áhöfn varðskips séð til bátsins og reynt í klukkustund að fá tyrknesku strandgæsluna að bregðast við. Engin viðbrögð af hálfu Tyrkja þannig að Grikkir gripu inn.

Komið með flóttafólkið að landi á Samos í vikunni.
Komið með flóttafólkið að landi á Samos í vikunni. AFP

Í fyrstu virðist sem aðeins nokkrir séu um borð í bátnum en þegar nær er komið sér áhöfnin að báturinn er yfirfullur af fólki. Þetta eru karlar, konur og börn á öllum aldri, alls 48 manns. Þrátt fyrir að veðrið sé gott þekkir áhöfn björgunarbátsins hvað það getur breyst hratt. 

„Það er svo skrýtið að það er alltaf eins og það rjúki upp vindurinn þegar við erum að fara að bjarga fólki,“ segir Evangelos vélstjóri björgunarbátsins, við blaðamann AFP-fréttastofunnar sem er með um borð og fylgist með björgunaraðgerðunum. 

Það tekur ekki langan tíma að bjarga fólkinu um borð. Ekkert þeirra talar ensku nægjanlega vel til að útskýra hvaðan þau koma en síðar kemur í ljós að þau eru flest frá Sýrlandi og Írak. 

Fólkið er glatt, því var bjargað ólíkt mörg hundruð öðrum sem drukkna á þessum slóðum á hverju ári. En það sem það veit ekki að væntanlega mun það taka nokkra mánuði að afgreiða beiðni þeirra um alþjóðlega vernd. Biðin verður væntanlega í yfirfullum flóttamannabúðum á grískri eyju. Mögulega verða þau öll síðan send aftur til baka til Tyrklands. 

Ekki 600 heldur 6000

Blaðamaður AFP-fréttastofunnar fylgdist með björgun þessa fólks í vikunni.
Blaðamaður AFP-fréttastofunnar fylgdist með björgun þessa fólks í vikunni. AFP

Farið er með hópinn til Samos þar sem sex þúsund manns hafast við í flóttamannabúðum sem ætlaðar eru fyrir 600. Ástandið er ekkert skárra á hinum eyjunum á þessum slóðum: Lesbos, Chios, Kos og Leros. Sama hvað margir eru fluttir frá eyjunum það koma alltaf nýir í staðinn. Áhöfnin stoppar stutt við á Samos því það þarf að koma fleirum til bjargar. Þetta kemur fram í grein AFP-fréttastofunnar frá því fyrr í vikunni. 

Grikkland geymslustaður ESB

Fyrir utan Eleonas flóttamannabúðirnar í útjaðri Aþenu.
Fyrir utan Eleonas flóttamannabúðirnar í útjaðri Aþenu. AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, sakar Evrópusambandið um að nota lönd sem eru í útjaðri bandalagsins sem geymslustað fyrir flóttamenn og hælisleitendur. Mitsotakis segir í viðtali við þýska dagblaðið Handelsblatt að ESB horfi framhjá þeim vanda sem blasi við Grikkjum vegna þess mikla fjölda sem þangað kemur.

Um síðustu helgi, það er frá föstudegi til mánudags, komu 1.350 flóttamenn að landi á grísku eyjarnar í Eyjahafi. Fyrir voru 32 þúsund flóttamenn á eyjunum þar sem þeir búa við aðstæður sem eru hvorki boðlegar mönnum né dýrum. Í dag er talið að flóttamennirnir séu rúmlega 34 þúsund á eyjunum.

„Þetta getur ekki haldið svona áfram,“ segir Mitsotakis sem tók við embætti forsætisráðherra í júlí. Er þetta samstaða Evrópu? Nei ég mun ekki sætta mig við þetta lengur,“ sagði hann í viðtalinu og í gær kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að stemma stigu við komu fólks frá Tyrklandi líkt og kom fram hér að framan. 

Hótar að „opna hliðið“

Húsnæði flóttafólks á Samos.
Húsnæði flóttafólks á Samos. AFP

Mitsotakis sakar forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, um að notfæra sér flóttafólkið til að þrýsta á Evrópu og fá stuðning ESB. Í byrjun nóvember sagði Erdoğan að hann myndi „opna hliðið“ fyrir milljónir flóttamanna sem eru í Tyrklandi ef ESB gagnrýndi aðgerðir Tyrkja á svæðum Kúrda í norðurhluta Sýrlands. 

„Ég sagði Erdoğan í hreinskilni að hann geti ekki misnotað flóttafólk og hælisleitendur ef hann vill halda góðu sambandi við nágranna sína, Grikki,“ segir Mitsotakis í viðtalinu. 

„Lokið landamærunum“

Mótmælendum mótmælt í Diavata en þar buðu þjóðernissinnar í grillveislu.
Mótmælendum mótmælt í Diavata en þar buðu þjóðernissinnar í grillveislu. AFP

Á sama tíma og grísk yfirvöld heita því að flytja fólk af eyjunum á meginlandið hefur útlendingahatur og kynþáttaníð aukist gagnvart hælisleitendum í Grikklandi. Þetta kemur fram í nýlegum gögnum samtakanna Racist Violence Recording Network (RVRN) en samtökin starfa með stuðningi Sameinuðu þjóðanna.

Þjóðernissinnar mótmæla komu flóttafólks til meginlandsins.
Þjóðernissinnar mótmæla komu flóttafólks til meginlandsins. AFP

Mótmælafundir hafa verið haldnir í nokkrum bæjum í norðurhluta Grikklands að undanförnu. Í síðasta mánuði voru birtar myndir í grískum fjölmiðlum af rútum, fullum af hælisleitendum, á leið til bæjarins Nea Vrasna í Norður-Grikklandi. Rútubílstjórarnir þurftu að snúa við þar sem nokkrir tugir bæjarbúa lokuðu leiðinni inn í bæinn, köstuðu steinum í rúturnar og kölluðu: „Lokið landamærunum“.

Hópur þjóðernissinna bauð bæjarbúum í Diavata í grillveislu um síðustu helgi þar sem boðið var upp á svínakjöt og áfengi. Eitthvað sem er bannað að neyta samkvæmt íslam. Grillveislan var haldin beint fyrir utan flóttamannabúðirnar í bænum. Þetta er staðan í Grikklandi í dag.

Sarah Mardini og Seán Binder.
Sarah Mardini og Seán Binder. Ljósmynd Amnesty International

Á hverju ári í kringum alþjóðlega mannréttindadaginn 10. desember safnast milljónir bréfa, korta, sms-ákalla og undirskrifta í gegnum alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International þar sem skorað er á stjórnvöld að gera umbætur í mannréttindamálum.

„Þessi einstaki samstöðumáttur skilar raunverulegum breytingum í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf breytt,“ segir í tilkynningu frá Amnesty á Íslandi.

Hér er hægt að lesa um málin og skrifa undir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert