Leituðu ekki tilboða í viðskiptum við Attentus

Dómstólasýslan keypti þjónustu hjá Attentus fyrir rúmar þrjár milljónir króna …
Dómstólasýslan keypti þjónustu hjá Attentus fyrir rúmar þrjár milljónir króna frá því í september í fyrra til loka október í ár. mbl.is/Hjörtur

Dómsmálaráðuneytið hefur undanfarið keypt þjónustu hjá Attentus – mannauði og ráðgjöf vegna stjórnendaþjálfunar, ráðninga og ráðgjafar í starfsmannamálum.

Verkefnin voru aðskilin og þótti umfang þeirra ekki gefa tilefni til að leita tilboða.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tilefnið er umfjöllun blaðsins um viðskipti ríkisstofnana við Attentus. Þau námu alls 44,4 milljónum króna á tímabilinu frá september 2018 til og með 31. október 2019. Þar af keypti dómsmálaráðuneytið þjónustu fyrir 2,8 milljónir á tímabilinu.

Þá fékkst það svar frá félagsmálaráðuneytinu að velferðarráðuneytið hefði keypt þjónustu af Attentus vegna ráðgjafarþjónustu ásamt láni á mannauðsstjóra.

Alls á þriðju milljón króna

Spurt var um þrjá reikninga, alls að fjárhæð 2,15 milljónir króna, sem samkvæmt vefsíðunni opnirreikningar.is voru stílaðir á velferðarráðuneytið. Velferðarráðuneytinu var skipt í tvö ráðuneyti um síðustu áramót. Einn reikninganna, að fjárhæð 596 þúsund, var gefinn út eftir það. Það svar fékkst frá félagsmálaráðuneytinu að ekki hefði verið leitað tilboða vegna þessara viðskipta.

Dómstólasýslan keypti þjónustu hjá Attentus fyrir rúmar þrjár milljónir króna á tímabilinu. Það svar fékkst frá Dómstólasýslunni að tilefnið var aðstoð við stefnumótunarvinnu, ráðningar starfsfólks og stjórnendaþjálfun. Ekki var talið tilefni til að leita tilboða í verkefnin „þar sem umfang gaf ekki tilefni til“.

Morgunblaðið hefur einnig sent fyrirspurn til forsætisráðuneytisins sem ekki hefur verið svarað.

Hins vegar bárust svör frá Umhverfisstofnun, lögreglunni á Suðurnesjum og Héraðsdómi Reykjavíkur vegna viðskipta við Attentus. Í öllum tilvikum var ekki leitað tilboða vegna þjónustunnar.

Meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert