Vonar það besta og býr sig undir það versta

Skömmu fyrir fundinn í dag sem hófst klukkan 13.30. Hjálmar …
Skömmu fyrir fundinn í dag sem hófst klukkan 13.30. Hjálmar er fyrir miðri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjaraviðræður Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins halda áfram í dag hjá ríkissáttsemjara.

„Miðað við hvað þetta hefur gengið ótrúlega illa hingað til og miklu verr en ég hefði trúað þá vona ég það besta og bý mig undir það versta,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, spurður út í fundinn sem hófst klukkan 13.30.

Hann segir að báðir aðilar hafi lagt sig vel fram á fundinum sem var haldinn í gær og að virkilega fín vinna hafi verið í gangi.

Rut Haraldsdóttir, starfsmannastjóri Árvakurs, og Hjálmar Jónsson.
Rut Haraldsdóttir, starfsmannastjóri Árvakurs, og Hjálmar Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort deiluaðilar séu farnir að nálgast hvorir aðra segist hann telja raunhæft að menn nái saman. „Báðir aðilar stefna að því að reyna að forða því að það verði vinnustöðvun á morgun. Hvort það tekst verður að koma í ljós. Það er klárlega mikill vilji báðum megin.“

Ekki náðist í Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, við vinnslu fréttarinnar.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert