Ísland sótti silfur í Peking

Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti.
Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti. Ljósmynd/Aron Þórður

Alþjóðlegt knattspyrnumót sendiráða Norðurlandanna var haldið í Kína um nýliðna helgi. Ísland var, líkt og síðustu ár, þar meðal þátttökuþjóða, en þetta er í fimmta sinn sem mótið er haldið í Kína. Árangur íslenska liðsins á mótinu var sá besti frá upphafi, en liðið hafnaði í öðru sæti.

Alls voru átta lið frá sex löndum meðal þátttökuþjóða. Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Finnland og Ísland sendu öll lið til leiks, en auk þeirra voru þrjú kínversk lið send á mótið. Að lokum stóð eitt síðastnefnu liðanna uppi sem sigurvegari eftir úrslitaleik við íslenska liðið.

Talsvert var fjallað um mótið í kínverskum fjölmiðlum, þar á meðal Global Times. Mótið fór fram í Ólympíuhöllinni við Landbúnaðarháskólann í Peking og var fjöldi fólks mætt til að fylgjast með. Forvitnilegt verður að fylgjast með íslenska liðinu á næsta ári, en ef fram heldur sem horfir má ráðgera að skammt sé þar til Ísland sækir gullið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert