Úrgangur dregst saman milli ára

Úrgangur minnkar og sala eykst í Góða hirðinum.
Úrgangur minnkar og sala eykst í Góða hirðinum. mbl.is/Eggert

Úrgangsmagn dróst saman um rúm 13% fyrstu 10 mánuði þessa árs saman borið við sama tímabil í fyrra. Er þetta í fyrsta skipti frá árinu 2013 sem magn úrgangs dregst saman á milli ára hjá Sorpu.

Samdrátturinn kemur fram á öllum starfsstöðvum Sorpu en mestu munar þó í magni úrgangs sem berst blandaður í urðun, eða 9%, og í jarðvegi og steinefnum til landmótunar á urðunarstað, eða 30%. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu er endurnýtingarhlutfall svipað á milli ára, eða í kringum 50%.

Á höfuðborgarsvæðinu dregst úrgangur í sorptunnum íbúa saman um 3% á milli ára. Tímabilið janúar til október 2018 var úrgangur í sorptunnum fólks 118,2 kg á íbúa en er nú 114,6 kg á íbúa. Pappír og pappi dregst einnig saman, eða um 5% þetta sama tímabil. Fer magnið úr 19,3 kg í 18,3 kg á íbúa. Söfnun á plasti í gegnum sorphirðu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar eykst aftur á móti um 5,6% á milli ára.

Þá eykst magn seldra muna í Góða hirðinum um 60% milli ára. Samspil margra þátta er talið ráða þar, s.s. breytingar á versluninni og aukinn áhugi í samfélaginu á að kaupa notaðar vörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert