Læknar óska eftir svörum vegna kjaraskerðinga

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segist vonast til þess að þær kjaraskerðingar sem læknar á Landspítalanum standi nú frammi fyrir leiði ekki til uppsagna. 

Frá og með 1. desember var hluta lækna sagt upp ráðningasamningi á Landspítalanum, að því leyti er snýr að greiðslu fastrar yfirvinnu, sem greidd er fyrir breytilega vinnu sem erfitt er að tímamæla.

Breytileg yfirvinna lækna á Landspítalanum er ekki greidd samkvæmt stimpilklukku heldur samkvæmt fastri yfirvinnu. Föst yfirvinna lækna hefur áður verið minnkuð í kjaraviðræðum árið 2015, auk þess sem hjúkrunarfræðingar hafa sætt skerðingum á slíkri yfirvinnu. 

„Nú er Landspítalinn búin að ákveða það að segja upp þessum samningum við þá lækna sem hafa haft svona samninga, sem er reyndar bara hluti læknanna á spítalanum, og það er ýmist að öll föst yfirvinna sé tekin og ekki greidd lengur eða minnkuð,“ segir Reynir Arngrímsson í samtali við mbl.is, en einnig var fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Bitnar helst á yfirlæknum og sérfræðingum

Samkvæmt Reyni munu þessar breytingar fyrst og fremst hafa áhrif á kjör yfirlækna og sérfræðinga á spítalanum. Læknafélagið sé nú að leita eftir upplýsingum um frekari áhrif umræddra hagræðingaraðgerða, það er að segja á hvaða hópa málið hefur áhrif. 

Reynir segir að árin 2016 til 2017 hafi einn og hálfur milljarður verið greiddur fyrir fasta yfirvinnu á Landspítalanum.

„Af þeirri heildarupphæð fengu læknar um 300 milljónir króna. Það var verið að greiða öðrum en læknum um 900 milljónir. Við sjáum að hjúkrunarfræðingar eru með svipað eða aðeins meira en læknar hafa fengið á þessu árabili, en það er samt lítill hluti miðað við heildarupphæðina. Þetta eru kannski 600 milljónir samtals af einum og hálfum milljarði. Við spyrjum núna hvað sé verið að gera varðandi aðra sem eru á fastri yfirvinnu. Hvað á að gera hjá yfirstjórn spítalans sem greiddi sjálfri sér tæpar 400 milljónir á þessu ári í fasta yfirvinnu? Hvað er verið að gera þar?“ spyr Reynir. 

Gæti valdið töfum á meðferð sjúklinga

„Í okkar huga væri nær lagi að hafa í forgangi greiðslur til þeirra sem eru að sinna sjúklingum, eins og hjúkrunarfræðingar og læknar. Það vekur líka athygli að aðrar starfsstéttir sem sinna sjúklingum eins og til dæmis sjúkraliðar og geislafræðingar, þeir eru ekki að fá neinar svona greiðslur en við vitum að það er mikið álag á þeim líka. Þetta er spurning um forgangsröðun. Er verið að borga fólki sem er að sjá um öryggi sjúklinga umfram vinnudaginn eða vaktavinnu, eða er verið að borga fólki á skrifstofum?“ segir Reynir. 

Umræddar kjaraskerðingar munu einkum hafa áhrif á sérfræðinga og yfirlækna.
Umræddar kjaraskerðingar munu einkum hafa áhrif á sérfræðinga og yfirlækna. mbl.is/Árni Sæberg

Reynir telur ólíklegt að kjaraskerðingarnar muni hafa áhrif á þjónustu við sjúklinga. 

„Ég held að þetta muni ekki ógna öryggi sjúklinga, en þetta gæti leitt til einhverra tafa á meðferð sjúklinganna. Okkur fannst full ástæða til þess að taka það fram við lækna í ábendingum okkar, hvernig þeir ættu að bregðast við ef þarna væri verið að hætta með einhver verkefni. En kalt mat mitt er að þetta geti hugsanlega tafið meðferð sjúklinga, en ógni ekki öryggi þeirra,“ segir Reynir. 

Skila inn vinnu sem þeir fá ekki greitt fyrir

Reynir segir að sú skerðing sem hafi orðið á fastri yfirvinnu lækna árið 2015 hafi ekki leitt til uppsagna. „Þannig að ég er að vona að það muni ekki gera það núna, að menn muni reyna að semja sig upp á einhverjar ásættanlegar niðurstöður eða milliveg. Að það sé hægt að fá spítalann til að koma og semja við þessa einstaklinga sem um ræðir.“

Þá segir Reynir að algengt sé að læknar sinni ákveðnum störfum án þess að fá fyrir það greitt. Læknafélagið hyggst nú reyna að ná samkomulagi við Landspítalann um uppgjör slíkrar vinnu. 

„Við vitum það samkvæmt skoðanakönnunum okkar, að hjá opinberum stofnunum eru 83% lækna að skila vinnu sem ekki er greitt fyrir. Við munum núna í kjölfarið á þessu óska eftir samningaviðræðum við Landspítalann um það hvernig eigi að tryggja það að menn fái alltaf greitt fyrir það sem þeir vinna á spítalanum,“ segir Reynir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert