Auðir dálkar í Fréttablaðinu

Skjáskot af forsíðu Fréttablaðsins

Fréttablaðið er með sérstæðu sniði í dag þar sem verkfall blaðamanna í gær kom í veg fyrir fréttaskrif í Fréttablaðið og í stað frétta eru auðir dálkar.

Þetta er í fyrsta sinn sem blaðið kemur út í þessu formi og segir Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, að engar fréttir séu í blaðinu enda voru félagsmenn Blaðamannafélags Íslands sem starfa við fréttaskrif í blað, prófarkalesarar og ljósmyndarar í tólf klukkustunda verkfalli í gær sem hófst klukkan 10.00 í gærmorgun.

Hins vegar er í blaðinu efni sem var tilbúið við upphaf verkfalls og ekki þarfnaðist frekari meðhöndlunar blaðamanns, auk aðsendra greina. Ef að líkum lætur mun þessa tölublaðs vera minnst, að minnsta kosti um hríð

„Það er fullt starf fjölda starfsmanna á ritstjórn að skila efni í hvert tölublað og því var ekki mögulegt annað en að blað dagsins bæri merki þessara aðgerða. Fréttablaðið hefur skyldur við lesendur og auglýsendur og því var tvennt sem lagt var til grundvallar þeirri ákvörðun að blaðið yrði gefið út við þessar aðstæður.

Annars vegar að virða rétt blaðamanna til vinnustöðvunar. Því eru ekki fréttir í þessu tölublaði, en birt er annað ritstjórnarefni, sem tilbúið var áður en verkfall brast á.

Hins vegar að auglýsendur geti reitt sig á auglýsingamátt blaðsins og ekki kæmi rof í nærri tuttugu ára útgáfusögu þess,“ segir í frétt Fréttablaðsins. 

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

Skjáskot úr Fréttablaðinu í dag
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert