Píeta-húsið á sínum stað næstu tvö árin

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, og Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta, …
María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, og Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta, eftir að samningurinn var í höfn. Ljósmynd/Aðsend

Píeta-hús Reykjavíkur verður áfram á sínum stað við Baldursgötu 7 í miðborginni næstu tvö árin hið minnsta. Þetta var tryggt með nýjum samningi Píeta og leigufélagsins Ölmu, sem útvegar samtökunum húsnæðið ókeypis til afnota.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samtökin, sem rekin eru að írskri fyrirmynd, hófu starfsemi sína á Baldursgötu vorið 2018 og er markmiðið að sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við bakið á aðstandendum. Hundruð hafa notfært sér þjónustuna.

Til Píeta geta bæði komið einstaklingar sem glíma við sjálfsvígshugleiðingar eða sjálfsskaðavanda, sem og þeir sem hafa misst einstakling í sjálfsvígi eða óttast um sína nánustu. Öll aðstoð er endurgjaldslaus og veitt af fagfólki.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tilkynnti um fyrirhugaða opnun Píeta-hússins í september 2017. Þangað hefur verið mikil aðsókn allt frá opnun, en síðastliðinn nóvember myndaðist í fyrsta sinn biðlisti eftir þjónustunni.

Húsnæðið er um 100 fermetrar að stærð og er markmiðið að aðstæður séu heimilislegar og notalegar fyrir þá sem þangað sækja, að því er segir í tilkynningunni.

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins. Ljósmynd/Aðsend

Síðasti samningur um húsnæðið var gerður í nóvember 2017 til tveggja ára og var því komið að endurnýjun. María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, og Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, undirrituðu nýjan samning til tveggja ára síðasta miðvikudag.

 „Aðsókn í okkar þjónustu fer stöðugt vaxandi og við fögnum því sannarlega að fleiri leiti sér aðstoðar. Okkar skjólstæðingar eru að jafnaði í viðkvæmum aðstæðum og því ómetanlegt að geta áfram boðið öruggar og notalegar aðstæður á Baldursgötunni,“ segir Kristín í tilkynningunni. „Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að lengja afgreiðslutíma okkar út af plássleysi en Baldursgatan hefur svo sannarlega verið okkar heimili.“

„Það hefur verið frábært að fylgjast með starfi Píeta undanfarin tæp tvö ár, þar sem fólki í viðkvæmum aðstæðum er veitt vönduð ráðgjöf og aðstoð,“ segir María Björk, framkvæmdastjóri Ölmu í tilkynningunni. „Við erum afskaplega stolt af samstarfinu og ánægð að geta tryggt áframhaldandi starfsemi Píeta-hússins, þar sem fjöldi fólks sækir þjónustu á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert