Jafnréttismiðuð fyrirtæki fái skattaafslátt

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. mbl.is/Eggert

Sjö þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata hafa lagt fram frumvarp um lækkun tryggingagjalds á jafnréttismiðuð fyrirtæki. Verði það að lögum munu þau fyrirtæki fá 0,5 prósentustiga afslátt af gjaldinu, en tryggingagjald er nú 4,9% og leggst á allar launagreiðslur.

Meðal skilyrða sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að geta sótt um lækkun eru að þau hafi í gildi jafnréttisáætlun og gilda jafnlaunavottun, auk þess sem hlutfall stjórnenda af hvoru kyni sé ekki hærra en 60%, annars vegar í framkvæmdastjórn, og hins vegar meðal almennra stjórnenda. Fyrirtæki með færri en 25 starfsmenn yrðu þó undanþegin skilyrðinu um jafnlaunavottun.

Fyrsti flutningsmaður er Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra. Í greinargerð með frumvarpinu segir að því sé ætlað að skapa jákvæðan hvata til að taka jafnréttismál föstum tökum. Efnisleg rök eru fyrir því að fyrirtæki sem hafi náð betra jafnvægi milli kynja greiði lægra tryggingagjald, þar sem aukið jafnvægi kynja í stjórnunarstöðum sé til þess fallið að draga úr óleiðréttum launamun kynjanna og minnka þar með vægi almannatrygginga í lífeyrisgreiðslum, segir í greinargerð, þar sem bent er á að konur reiði sig í ríkara mæli en karlar á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja í fyrra var 33,5% meðal fyrirtækja sem telja fleiri en 50 starfsmenn, en 25,9% í fyrirtækjum með 50 eða færri starfsmenn. 

Tekjutap ríkisins af frumvarpinu réðist vitanlega af þeim fjölda fyrirtækja sem uppfylltu skilyrðin, en í greinargerð segir að lækkunin næmi 8 milljörðum króna á ársgrundvelli ef öll fyrirtæki landsins uppfylltu það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert