Þorleifur leikstýrir Rómeó og Júlíu

Þorleifur Örn Arnarsson ásamt Mikael Torfasyni í október 2017 skömmu …
Þorleifur Örn Arnarsson ásamt Mikael Torfasyni í október 2017 skömmu fyrir frumsýningu á Guð blessi Ísland sem Borgarleikhúsið sýndi á Stóra sviðinu. Leikárið 2020-2021 mun Þorleifur leikstýra þar Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í nýrri íslenskri þýðingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var farinn að sakna Íslands og íslenska leikhússins og langaði til að vinna sýningu hér heima. Þegar Kristín hringdi í mig og ég áttaði mig á því að leikárið 2020-2021 væri síðasta leikárið hennar sem leikhússtjóri fann ég að mig langaði til að koma heim og loka hringnum, ef svo má segja. Við Kristín höfum átt svo gefandi og gott samstarf á liðnum árum, enda lít ég á Njálu og Guð blessi Ísland sem ákveðna hápunkta á mínum ferli,“ segir Þorleifur Örn Arnarsson.

Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri kynnti leikárið 2020-2021 fyrir starfsfólki leikhússins á fundi í gær og þar kom fram að Þorleifur mun á því leikári á Stóra sviðinu leikstýra Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í nýrri íslenskri þýðingu.

„Ég hef sett upp sjö leikrit eftir Shakespeare í gegnum tíðina. Mig hefur lengi langað til að setja upp Shakespeare á Íslandi. Mér finnst Rómeó og Júlía smella hvað best inn í þá samfélagslegu byltingu sem er að eiga sér stað sem snýr að uppgjörinu við söguna og samskipti kynjanna,“ segir Þorleifur.

Eyjan bölvun og blessun

Þorleifur hefur ekki starfað á Íslandi síðan hann frumsýndi Guð blessi Ísland í október 2017. Í haust sem leið tók hann við sem yfirmaður leikhúsmála við Volksbühne-leikhúsið í Berlín samhliða því að hann leikstýrir reglulega í mörgum stærstu leikhúsum Evrópu.

„Ég fann á sínum tíma að ég þyrfti aðeins að komast í burtu frá Íslandi og í annað umhverfi. Bæði til að næra mig í listinni en líka vegna þess að ég upplifði ákveðið afturhvarf á Íslandi. Það varð ákveðin vakning í samfélaginu kringum fjármálahrunið og aftur í kringum Panamaskjölin, en fljótlega upplifði ég að stór hluti samfélagsins væri að reyna að gleyma þessum hlutum og endurheimta „gömlu góðu tímana“. Ég upplifði því bæði listrænt og samfélagslegt misræmi sem ég þurfi aðeins að fjarlægja mig frá. Það var afar gott að fá ákveðna fjarlægð og geta fókúserað á feril minn erlendis,“ segir Þorleifur og tekur fram að það sé ekki hægt að segja annað en að hann hafi náð því takmarki sem hann hafi sett sér.

„Ég er kominn í stöðu sem ég hef unnið að mjög lengi. Ég er orðinn einn eftirsóttasti leikstjórinn í hinum þýskumælandi leikhúsheimi og orðinn yfirmaður leikhúsmála í því leikhúsi sem mótaði mig sem listamann á mínum yngri árum og opnaði mér nýjar leiðir,“ segir Þorleifur og tekur fram að heimþráin hafi hins vegar að óvörum látið á sér kræla. „Það sannast það sem í Eddunni segir að þessi eyja er bölvun manns, örlög og blessun. Mig langaði til að halda áfram með samtalið við íslenskt samfélag og leikhús.“

Elma Stefanía Ágústsdóttir er fastráðinn leikari við Burg-leikhúsið í Vín. …
Elma Stefanía Ágústsdóttir er fastráðinn leikari við Burg-leikhúsið í Vín. Mikael Torfason, eiginmaður hennar, og Þorleifur Örn Arnarsson eru nú um stundir að skrifa nýtt verk sem sett verður þar á svið leikárið 2021-2022.

Spurður hvort hlaupið væri að því að finna tíma til að koma heim til að leikstýra svarar Þorleifur því neitandi, enda sé hann bókaður fram til ársins 2025. „Til að byrja með sá ég ekki möguleika á að koma heim í bráð, en að lokum fór svo að ég hliðraði til mjög stórri sýningu erlendis til að geta leikstýrt heima. Ég áttaði mig á því að mig langaði til að vinna þetta verkefni í Borgarleikhúsinu meðan Kristín væri enn leikhússtjóri,“ segir Þorleifur og bætir við að hann hafi gert sér grein fyrir að hann yrði sem listamaður að hlýða tilfinningum sínum og löngunum.

Inntur eftir því hvaða stóra verkefni um sé að ræða sem þurfti fyrir vikið að seinka segist Þorleifur lítið annað geta sagt eins og stendur en að um sé að ræða verk sem þeir Mikael Torfason séu að skrifa og frumsýnt verði leikárið 2021-2022 í Burg-leikhúsinu í Vín þar sem Elma Stefanía Ágústsdóttir, kona Mikaels, er fastráðin sem leikari.

Saga kvenna hunsuð í samfélagsstrúktúrnum

Spurður hvaða tökum hann muni taka Rómeó og Júlíu segist Þorleifur lesa verkið sem týpísk dæmi um það hvernig raunveruleg saga kvenna sé hunsuð í samfélagsstrúktúrnum. „Í upphafi leikritsins höfum við annars vegar Rómeó sem er tilfinningalega óstöðugur ungur maður með þráhyggjuhuga og hins vegar Júlíu sem á að selja í hjónaband til að lagfæra stöðu fjölskyldunnar. Unga konan er gjörsamlega ofurseld örlögum sem hún hefur ekkert með að gera. Þegar þau hittast í fyrsta skipti hefur Rómeó verið dreginn í veisluna af vinum sínum til að koma honum á séns svo hann gleymi ástarsorg sinni vegna Rósalindar. Það gleymist oft að veislan er kjötsýninng – það er bara verið að sýna kjötið sem á að selja, sem er Júlía.

Það sem hefur alltaf heillað mig við verkið er sú túlkun að Júlía – sem við getum gert ráð fyrir að vita hver og hvernig Rómeó er enda var Veróna ekki stórborg – sjái í Rómeó möguleika á að eiga örlitla stund af eigin lífi. Þau verða ástfangin á vitlausum forsendum, en síðan smellur eitthvað. Hann fórnar í raun engu en hún fórnar öllu fyrir þetta samband. Hann leggur ástarsamband þeirra undir þegar hann berst við og drepur Tíbalt, frænda Júlíu. Í framhaldinu flýr Rómeó og skilur Júlíu eftir hjá feðraveldi sem er gjörsamlega brjálað,“ segir Þorleifur og rifjar upp að faðir Júlíu hótar dóttur sinni lífláti ef hún giftist ekki greifanum.

„Úrvinnslan á uppbyggingu Rómeós í fyrri hlutanum er að mörgu leyti ungæðisleg þó óhugguleg element leynist í bakgrunninum. Seinni hlutinn, sem hefur iðulega verið skorinn mjög mikið niður, felur í sér úrvinnslu á sögu ungrar konu, sem í sameiningu við mæðraveldið og kirkjuna ákveður að gera uppreisn gegn örlögum sínum. Ef þú skoðar leikritið með þessum augum verður þetta mjög áhugavert. Því allt í einu er þetta saga af baráttu ungrar konu gegn kerfi sem er hannað til að svipta hana eigin vilja. Út frá þessu er áhugavert að velta fyrir sér hversu mikið af þessu er í raun saga kvenna,“ segir Þorleifur og tekur fram að hann hafi nýverið afbyggt annað frægt verk þegar hann leikstýrði Faust eftir Goethe í Noregi og notaði Faust til að segja sögu Grétu.


„Rómeó og Júlíu fellur þannig inn í uppgjör mitt við sögu kvenna,“ segir Þorleifur og bendir á að í hinum þýskumælandi heimi sé hann skilgreindur sem femínískur leikstjóri. „Ég hef talað opið um það að ég byggi mitt leikhús að mörgu leyti á femínískri teoríu. Það er mjög auðvelt að kalla sig femínista og ég veit ekkert hvort ég er femínisti. Hins vegar finnst mér femínísk teóría frábær til að skoða klassíkina. Því í raun er femínísk teoría ekkert annað en að setja stöðug spurningarmerki við viðvarandi valdakerfi og stöðu persóna í samfélagssamhenginu,“ segir Þorleifur og tekur fram að sé uppsetningasaga verksins skoðuð fari lítið fyrir slíkri túlkun.


Frásagnarlegt hispursleysi

„Leikhús sem talar inn í samtíma sinn er leikhús sem tekst að einhverju leyti að sameina sögulegt uppgjör og endursköpun á verkum. Mig langar að birta róttæka sýn á verkið en samtímis að ná að gera sýningu sem hrífur áhorfendur með. Rómeó og Júlía verður líka að vera þannig að stundum sitji áhorfendur hreinlega með tárin í augunum. Ég hef á tilfinningunni að ég geti náð þessum spennandi línudansi með hópnum sem ég þekki í Borgarleikhúsinu. Ég er ekki viss um að hugarfar þýskra leikara myndi leyfa mér að fara þessa leið. Og þar kemur að því sem ég sakna úr íslensku leikhúsi og við Ísland. Hér í Þýskalandi er vitsmunaleg regnhlíf yfir öllu sem er ótrúlega skemmtilegt og spennandi, en stundum vantar beintenginguna við tilfinningalífið. Mig langar að komast aftur í þetta frásagnarlega hispursleysi sem er tilfinningalega beinskeytt.“

Njála var valin sýning ársins þegar Gríman var afhent 2016. …
Njála var valin sýning ársins þegar Gríman var afhent 2016. Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri hélt þá ræðu við fögnuð leikhópsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Spurður um samstarfið við Kristínu Eysteinsdóttur fer Þorleifur ekki dult með aðdáun sína á henni sem listrænum stjórnanda. „Kristín hefur þann einstaka hæfileika að vera ofboðslega opin, gjöful í samskiptum og áhugasöm, en á sama tíma mjög skýr í öllum samskiptum. Í samtölum við hana upplifi ég svo sterkt að ég geti ekki gert neitt rangt. Fyrir listamann eins og mig, sem finnst áhugaverðast að ferðast um á óþekktum lendum, þá er svo ótrúlega mikilvægt að eiga félaga eins og Kristínu. Eftir samtöl við hana um listræn verkefni finn ég hvernig þau hafa flogið af stað, enda leggur Kristín allt undir.

Kristín frábær listrænn stjórnandi

Bæði Njála og ekki síður Guð blessi Ísland eru hápunktar á ferli mínum. Þar sem hún er sjálf leikstjóri hefur mér reynst gott að fá augu hennar lánuð í æfingarýminu og leita álits hjá henni. Hún þekkir jafnt leikarana sína og áhorfendur og mig svo vel að hún getur svo oft komið með góðar ábendingar. Ég hef aldrei breytt sýningu meira hálftíma fyrir frumsýningu en Guð blessi Ísland. Ég var með ákveðnar hugmyndir og settist niður með Kristínu sem við töluðum okkur í gegnum. Eftir samtalið þá vissi ég nákvæmlega hvað ég ætti að gera. Flestir leikhússtjórar myndu fá taugaáfall ef leikstjóri mætti hálftíma fyrir frumsýningu og segðist ætla að gera róttækar breytingar á sýningunni. Kristín blikkaði hins vegar ekki – enda heyrði hún að ég væri með breytingunum að gera sýninguna sterkari. Að þessu leyti er Kristín frábær listrænn stjórnandi,“ segir Þorleifur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert