Fleiri sækja aðstoð til kirkjunnar fyrir jólin

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar.
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar. nbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að fleiri nýti sér aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir jólin í ár en síðustu ár. Enn eru umsóknir að berast og þær hafa ekki allar verið afgreiddar. „Þá daga sem var opið hjá okkur í síðustu viku nýttu fleiri sér aðstoðina en í fyrra. Breytingin er sú að fleiri einstaklingar sem eru fæddir erlendis sækja um aðstoð,“ segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. 

Hún telur að heilt yfir muni fleiri óska eftir aðstoð í ár en í fyrra þrátt fyrir að heildarfjöldi liggi ekki fyrir. Þeir sem eru í þessum hópi hafa meðal annars misst vinnuna, eru einstæðir foreldrar, hafa fengið hæli hér en eru án vinnu o.s.frv. Hún nefnir sem dæmi að Pólverjar hafi alveg verið hættir að koma því þeir voru komnir með vinnu en um leið og uppsagnir verða í samfélaginu koma þeir aftur. „Maður sér hvernig vinnumarkaðurinn er,“ segir hún út frá þessum hópi sem þangað sækir. 

Hópurinn sem býr við fátækt hverfur ekki 

„Það verður alltaf þyngra og þyngra. Við þurfum alltaf að minna á að það er ákveðinn hópur í samfélaginu sem býr við fátækt og við þurfum að aðstoða hann. Hann hverfur ekki þótt við vildum gjarnan að hann gerði það. Við reynum á faglegan hátt að aðstoða hann en við þurfum aðstoð svo við getum það,“ segir Vilborg spurð hvernig gangi að fjármagna hjálparstarfið. 

Hún bendir á að í dag, í meintu góðæri, sé erfiðara að fjármagna aðstoð en var til að mynda í efnahagshruninu fyrir um áratug. „Andinn í samfélaginu var meira þannig að allir vildu hjálpa. Við fengum aldrei eins mikið og þá,“ rifjar hún upp. 

Útlit er fyrir að fleiri óski eftir aðstoð fyrir jólin …
Útlit er fyrir að fleiri óski eftir aðstoð fyrir jólin í ár. Ljósmynd/Pexels

Hún ítrekar að hjálparstarf kirkjunnar taki vel á móti hvers konar stuðningi og hún er þakklát fyrir alla aðstoðina sem starfið fær. „Við eigum ótrúlega þéttan hóp sjálfboðaliða sem eru að störfum allt árið. Við erum líka með sjálfboðaliða frá fyrirtækjum sem eru með okkur alltaf um jólin en það er hluti af þeirra jólaundirbúningi að senda sjálfboðaliða til okkar. Það er frábært, annars geta svona samtök ekki gert það sem þarf að gera,“ segir Vilborg með þakklæti. 

Þegar búið er að vinna úr umsóknum kemur fólk og fær kort sem það getur verslað fyrir og fær einnig jólagjafir. Fataúthlutun er einnig reglulega fyrir jólin og mætir fólk í kirkjuna og fær að velja jólaföt á fjölskylduna.

Þess má geta að í fyrra nutu alls 1.274 fjölskyldur eða um 3.400 einstaklingar um land allt aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert