Olíutankur N1 tæmdur

Frá Hofsósi.
Frá Hofsósi. Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands

Olíutankur við sjálfsafgreiðslustöð N1 á Hofsósi hefur verið tæmdur eftir að hann stóðst ekki lekapróf. N1 og Olíudreifing, í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið, rannsaka nú málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Tankar félagsins voru þykktarmældir síðastliðið sumar af viðurkenndum aðilum og stóðust þeir það próf. Tankarnir voru þrýstimældir í byrjun desember og stóðust þeir einnig það próf. 

Loks var gripið til þess ráðs að setja yfirþrýsting á tankana og kom þá í ljós að mögulega hefði einhver olía lekið. Umræddur tankur hefur verið tæmdur og var það gert snemma í þessu ferli, að því er segir í tilkynningunni.

Hann var í framhaldi hreinsaður og var farið ofan í hann í dag í samráði við starfsaðferðir Vinnueftirlitsins. Þar kom í ljós lítið gat og í framhaldinu var sett í geyminn vatn blandað með sápu sem eltir slóðina og vinnur á því eldsneyti sem niður hefur farið.

Heilbrigðiseftirlit hefur sent tvö jarðvegssýni í rannsókn hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Fyrra sýnið er komið úr rannsókn. Í því greinist hvorki olíu- eða eldsneytismengun. Annað sýni sem tekið var nokkrum metrum frá eldsneytistönkum fór í rannsókn í dag og er beðið niðurstöðu áður en farið verður í frekari aðgerðir.

Ljóst er að rannsaka þarf jarðveg í kringum eldsneytisgeyma frekar og mun N1 grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til hreinsunar og eftirfylgni.

„Íbúum á Hofsósi er þökkuð góð samvinna og jafnframt er beðið afsökunar á því raski og umstangi sem fylgir aðgerðum af þessu tagi. N1 fullvissar alla um að gripið verður til allra nauðsynlegra ráðstafana vegna þessa máls,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert