Fjölda fyrirtækja og stofnana lokað

Fjölmargar stofnanir og fyrirtæki loka fyrr í dag vegna veðurs.
Fjölmargar stofnanir og fyrirtæki loka fyrr í dag vegna veðurs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vegna afleitrar veðurspár og viðvörunar frá Veðurstofu Íslands hafa ýmsar stofnanir og fyrirtæki á landinu ákveðið að loka alfarið í dag eða loka fyrr. 

Afgreiðslu heilbrigðisráðuneytisins og embætti landlæknis verður lokað kl. 14 í dag, útibúum og afgreiðslum Landsbankans og Íslandsbanka verður lokað og sömu sögu er að segja um afgreiðslustöðvar Eimskips svo fátt sé nefnt. 

Útibú Landsbankans á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og annars staðar þar sem veður verður slæmt verða ýmist lokuð í dag eða lokað snemma. Þjónustuverum og útibúum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum var lokað kl. 13 í dag. Útibúum Íslandsbanka og Ergo verður lokað kl. 14 í dag. Viðskiptavinum er bent á að nýta sér netbanka og snjallforrit þar sem hægt er að framkvæma helstu aðgerðir.

Búast má við röskun á vörudreifingu og -afhendingu, gámaakstri og annarri þjónustu Eimskips eftir hádegi í dag. Ljóst er að þetta mun einnig hafa áhrif á þjónustu fram eftir degi á morgun, segir í tilkynningu frá Eimskip.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert