„Hugsum til þeirra sem standa vaktina með okkur“

Það er vissara að fara varlega þegar veturinn minnir kröftuglega …
Það er vissara að fara varlega þegar veturinn minnir kröftuglega á sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hvetur alla til að fara að öllu með gát í dag og á morgun, og vera ekki á ferðinni að óþörfu. „[...] förum varlega og hugsum til allra þeirra sem standa vaktina með okkur, ekki aðeins í dag og á morgun, heldur standa þá vakt árið um kring.“

Þetta skrifar Katrín í færslu á Facebook, en hún er svohljóðandi:

„Nú er spáð aftakaveðri um land allt. Ég hvet okkur öll til að fara varlega í dag og á morgun og vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Viðbragðsaðilar eru tilbúnir, Landsbjörg og björgunarsveitir um land allt, lögreglan og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, starfsfólk sveitarfélaga, sjúkraflutningamenn og slökkvilið, Landhelgisgæslan og hafnarverðir, Vegagerðin, Veðurstofan og snjóeftirlitsmenn, ferðaþjónustufyrirtækin sem miðla upplýsingum í samstarfi við Safe travel, Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð sem mun tryggja að við séum öll á sömu blaðsíðu, Rauði krossinn og fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til okkar allra. Og svo eru auðvitað margir fleiri sem þurfa að sinna sínum störfum þrátt fyrir veður og vinda.

Þannig að förum varlega og hugsum til allra þeirra sem standa vaktina með okkur, ekki aðeins í dag og á morgun, heldur standa þá vakt árið um kring.“

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert