Mengun saurkólígerla umtalsverð

Vinsælt er að veiða á stöng í Gömlu höfninni. Mengun …
Vinsælt er að veiða á stöng í Gömlu höfninni. Mengun er talsverð og nú á að leita að uppsprettum hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Faxaflóahafna hefur áhyggjur af mengun saurkólígerla í Gömlu höfninni í Reykjavík. Niðurstöður mælinga ársins 2018 á sjávargæðum, sem Landbúnaðarháskólinn framkvæmdi, voru lagðar fyrir stjórnarfund á föstudaginn.

Líkt og undanfarin ár var viðvarandi slæmt ástand í Reykjavíkurhöfn. Í einungis rétt rúmlega fimmtungi tilvika (21%) reyndist ástandið gott, en í fjórðungi tilvika (25%) var um mikla og allt að gríðarlega mengun saurkólígerla að ræða. Við Grandabryggju í mars 2018 mældist fjöldi saurkólígerla 130.000 í 100 ml sýnis. Það magn gerla sprengir skalann, því hæsta gildi fram að þessu á þeim sex árum sem vöktunin hefur verið í gangi var 5.500 í 100 ml sýnis (Verbúðarbryggja, október 2016).

Ástandið í Sundahöfn var nokkru betra en í 75% tilvika reyndist um litla, mjög litla eða enga saurkólígerlamengun að ræða. Samt sem áður komu reglulega fyrir tilvik þar sem mikill fjöldi saurkólígerla greindist í sýnum og í einu tilviki var fjöldinn það mikill að ástand vatns flokkaðist sem ófullnægjandi. Ástandið með tilliti til saurkólígerla var almennt gott árið 2018 í höfnum á Vesturlandi en í 97% tilvika var um litla, mjög litla eða enga saurkólígerlamengun að ræða.

Stjórn Faxaflóahafna samþykkti á fundinum á föstudaginn að fá frekari skoðun og gögn á mælingum í Gömlu höfninni og að teknar yrðu upp viðræður við Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Gísli Gíslason hafnarstjóri að finna verði mögulegar „uppsprettur mengunar“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert