Rúða brotnaði úti á Granda

mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa sinnt fjölda útkalla vegna veðursins sem nú gengur yfir landið.

Nú á áttunda tímanum átti ljósmyndari mbl.is leið hjá Boðagranda þar sem björgunarsveitin Ársæll sinnti útkalli vegna rúðu sem virtist hafa brotnað í íbúðarhúsi.

Uppfært kl. 21.19:

Að sögn Karls Inga Björnssonar hjá björgunarsveitinni Ársæli, brotnaði ein rúða á annarri hæð í fjölbýlishúsi eftir að klæðing í húsinu á móti fauk á rúðuna.

Einn hópur fór og skorðaði af klæðinguna sem hafði losnað á meðan annar hópur lokaði fyrir svefnherbergisgluggann.  

Verkefnið tók um 30 til 45 mínútur og tóku um tólf manns þátt.

Klæðingin sem fauk á rúðuna lenti hjá bíl á bílastæðinu en Karl Ingi hafði ekki upplýsingar um hvort bíllinn hefði skemmst.

Hann segir daginn hafa verið tiltölulega rólegan hjá sínum hópi og öllu rólegri en hann bjóst við fyrirfram. „Það hefur ekki verið neitt brjálað hjá okkur.“

Hópurinn hans er skipaður átta vöskum björgunarsveitarmönnum og ferðast þeir um höfuðborgarsvæðið á stórum bíl.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert