Truflanir á fjarskiptum á Norðurlandi

Í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð eru fulltrúar Neyðarlínunnar, almannavarnardeildar lögreglu og …
Í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð eru fulltrúar Neyðarlínunnar, almannavarnardeildar lögreglu og fjarskiptavaktardeildar, alls átta manns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðbundnar truflanir eru á fjarskiptakerfum á Norðurlandi og hefur samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð átt fund með forsvarsfólki í rafmagns- og fjarskiptageiranum.

Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, í samtali við mbl.is. „Það eru truflanir í kerfinu sem sumar hafa áhrif á fjarskiptin, þetta hangir svolítið saman. Við vorum að taka stöðuna á því hvað væri hægt að gera.“

Að öðru leyti segir Rögnvaldur að rólegt sé í samhæfingarstöðinni enn sem komið er. Þar eru fulltrúar Neyðarlínunnar, almannavarnadeildar lögreglu og fjarskiptavaktardeildar, alls átta manns. „Svo erum við í samskiptum við aðra eins og Vegagerðina og Veðurstofuna.“

Samhæfingarstöðin hefur ekki verið virkjuð að fullu. Aðspurður hvort viðbúið sé að fjölga þurfi í samhæfingarstöðinni segist Rögnvaldur ekki búast við því að svo stöddu. 

„Ég býst við að óbreyttu munum við ekki þurfa að bæta í en ef það gerist eitthvað ofan í þetta, alvarlegur atburður, þá munum við fjölga hérna inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert