Húsavík eins og stefnuljós

Eins og sést á kortinu er staðan verst á Norðurlandi.
Eins og sést á kortinu er staðan verst á Norðurlandi. Skjáskot af vef Rarik

Rafmagnslaust er víða á Norðurlandi og á einhverjum stöðum hefur verið rafmagnslaust að mestu síðan í gærmorgun. Á öðrum stöðum hefur rafmagn verið að detta út og koma inn til skiptis. Meðal annars á Húsavík sem er eins og stefnuljós þar sem rafmagn er afar óstöðugt, að sögn starfsmanns hjá Rarik sem blaðamaður ræddi við í morgun. Bakkalína hefur dottið út reglulega þannig að ekki hefur verið hægt að keyra rafmagn þaðan til Húsavíkur. 

Starfsmenn Rarik á Norðurlandi hafa staðið í ströngu í alla nótt en þar hefur gengið brösuglega að halda rafmagni inni og afar erfitt að sinna viðgerðum vegna óveðurs og ófærðar.

Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Akureyri eru viðbragðsaðilar að störfum allt í kringum Akureyri, ekki síst vegna stöðunnar á rafmagni þar sem verið er að reyna að laga staura og línur í aftakaveðri.

Vestur-Húnavatnssýsla, allt frá Borðeyri og Hrútafirði, er rafmagnslaus en rafmagn er á Blönduósi og víðast hvar í Austur-Húnavatnssýslu. Rafmagn er skammtað á Sauðárkróki en rafmagn er á víðast hvar annars staðar í Skagafirðinum. 

Rafmagnslaust er á Siglufirði og Ólafsfirði en Ólafsfjarðarlína er brotin við Svarfaðardalsá og ekki búist við að hægt verði að gera við fyrr en síðar í dag. Vegna krapavandamála í Skeiðsfossi er ekki heldur hægt að reka svæðið þaðan. 

Rafmagnsbilun er í Hörgársveit í Hörgárdal og Öxnadal, ekki hefur verið hægt að finna bilun vegna veðurs.
Fyrir stuttu datt út rafmagn á Árskógssandi og Grenivík og Tjörnesið er án rafmagns. Rafmagn er á Kópaskeri en það er keyrt með díselstöðvum og skerðing er á rafmagni á Raufarhöfn og Þórshöfn. Rafmagnslaust er í Öxarfirði og beggja vegna Sléttunnar, það er fyrir norðan Kópasker og austan við Raufarhöfn. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert