Ístak byggir tvær brýr í Suðursveit

Brúin yfir Steinavötn skemmdist haustið 2017 þegar grófst undan einum …
Brúin yfir Steinavötn skemmdist haustið 2017 þegar grófst undan einum stöpli hennar í vatnavöxtum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin skrifaði í vikunni undir samning við Ístak hf. í Mosfellsbæ um smíði nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá í Suðursveit.

Brúin yfir Steinavötn skemmdist haustið 2017 þegar grófst undan einum stöpli hennar í vatnavöxtum. Brúin var komin til ára sinna, 55 ára gömul. Þurfti að hafa hraðar hendur og byggja bráðabirgðabrú, en það var gert á innan við viku.

Smíði nýrrar brúar yfir Steinavötn var fyrst boðin út í vor en þá bárust engin tilboð. Útboð fór fram að nýju í haust og bárust þá átta tilboð, þar af eitt frá erlendu fyrirtæki. Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 770,4 milljónir króna, litlu hærra en kostnaðaráætlun, sem var 761,3 milljónir króna.

Verkið snýst um smíði nýrra brúa, yfir Steinavötn (102 metrar) og Fellsá (46 metrar) ásamt uppbyggingu á hringvegi í Suðursveit á tveimur köflum báðum megin brúnna. Veita skal ám undir nýjar brýr og eftir að vegtenging er komin á þær skal fjarlægja bráðabirgðabrýr og -vegi og gera leiðigarða við enda brúar yfir Steinavötn. Verkinu á að vera lokið 1. apríl 2021.

Þessi vegagerð er hluti af átaki til að fækka einbreiðum brúm á hringveginum. Enn eru 36 einbreiðar brýr á hringveginum, langflestar á Suður- og Suðausturlandi. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert