Setja upp búðir í Sölvadal

Vaktinni hjá björgunarsveitarmönnum á landinu er síður en svo lokið. …
Vaktinni hjá björgunarsveitarmönnum á landinu er síður en svo lokið. Alls hafa yfir 1.000 útköll borist frá því að óveðrið hófst á þriðjudag og fjöldi fólks tekur þátt í leit að unglingspilti sem féll í Núpá í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Vaktin er augljóslega ekki að taka enda, en staða núna er óbreytt að því leytinu að það er nóg af verkefnum á Norðurlandi sem snúa að samfélaginu og innviðunum, að ógleymdri leitinni í Sölvadal,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. 

Land­helg­is­gæsl­an hef­ur óskað liðsinn­is danska flug­hers­ins vegna leit­ar sem nú stend­ur yfir í Sölva­dal að ung­lings­pilti sem féll í Núpá á tí­unda tím­an­um í gær­kvöldi.

Björgunarsveitarmenn frá Suðvestur- og Vesturlandi voru sendir í Eyjafjörð eldsnemma í morgun og þá hefur sérstakur búðahópur frá íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni verið kallaður út. „Spáð er miklu frosti á Norðurlandi í dag og næstu daga og hugmyndin er að hópurinn komi upp aðstöðu fyrir viðbragðsaðila í Sölvadal til að hafa skjól og hita,“ segir Davíð.

Eins fer björgunarsveitarfólk með fjarskiptabúnað norður í land til að styðja við aðstæður á Norðurlandi heilt yfir en einnig til að bæta stopult samband í Sölvadal.

Yfir 800 björgunarsveitarmenn sinnt rúmlega 1.000 útköllum

Verkefni björgunarsveita síðustu sólarhringa eru orðin fleiri en þúsund og hafa um 800 manns verið á vaktinni.

„Við erum eiginlega hætt að telja en þetta er allt frá því að gá að stöðunni á heimili sem er búið að vera rafmagnslaust lengi eða aðstoða starfsmenn raforkufyrirtækja við að afísa spennuvirki,“ segir Davíð.

Útköllin snúa meira að öryggi fólks frekar en munum sem er að fjúka líkt og var í fyrstu. „Núna snýst þetta um að styðja við það starf að endurreisa samfélagið eins og almannavarnir orða það. Fólkið og innviðirnir eru það sem skiptir máli í dag og allir eru að leggja hönd á plóg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert