Útboð um eflingu stafrænnar þjónustu

AFP

Stafrænt Ísland, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hyggst standa fyrir útboði sem skila á rammasamningum fyrir allt að átján teymi frá fyrirtækjum.

Markmiðið er að teymin vinni með Stafrænu Íslandi að því að bæta þjónustu á island.is fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Kynningarfundur fyrir áhugasöm fyrirtæki verður haldinn mánudaginn 16. desember.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Útboð verkefnanna er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu. Unnið er að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu.

Teymin munu vinna í samvinnu við Stafrænt Ísland og stofnanir að verkefnum fyrir island.is, sem er miðlæg þjónustugátt. Verkefnin snúa að þróun á stafrænni þjónustu.

Útboðið felur í sér ríkar hæfis- og gæðakröfur en áhersla er jafnframt á að gera minni aðilum kleift að taka þátt. Gert er ráð fyrir að heildarumfang verkefna næstu tvö árin geti orðið allt að 60.000 klukkustundir með fyrirvara um fjárveitingar til verkefnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert