„Veðrið dró fram fram veikleika í kerfum okkar“

Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, segir nauðsynlegt að farið …
Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, segir nauðsynlegt að farið verið yfir þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi, bæði hvað varðar raforkukerfið, þjónustulið Vegagerðarinnar og öryggi fjarskiptakerfisins, í ljósi óveðursins sem gekk yfir landið í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir óveðrið sem gekk yfir landið í vikunni minna okkur illilega á hvað maðurinn má sín lítils gagnvart náttúruöflunum. 

„Veðrið dró fram fram veikleika í kerfum okkar, eitthvað sem við verðum að bregðast við hratt og örugglega, bæði hvað varðar uppbyggingu og viðbúnað,“ skrifar Sigurður Ingi í færslu á Facebook-síðu sinni. 

Ríkisstjórnin mun ræða ástandið á ríkisstjórnarfundi á morgun. Rafmagnslaust er víða á Norður- og Norðausturlandi og sums staðar hefur verið rafmagnslaust í nær tvo sólarhringa. Þá er enn víða ófært og unnið að hreinsun á vegum á Norðurlandi. Á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun hyggst Sigurður Ingi leggja alla áherslu á að allir íbúar landsins búi við öryggi.

„Það er mikilvægt að það sé nægjanleg orka á hverjum stað. Það er nauðsynlegt að flutningskerfið sé þannig byggt upp að fólk geti treyst því og að einstaklingar geti ekki komið í veg fyrir lagningu raforkulína þegar líf og öryggi samborgaranna er í húfi,“ skrifar ráðherrann. 

Hann segir nauðsynlegt að farið verið yfir þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi, bæði hvað varðar raforkukerfið, þjónustulið Vegagerðarinnar og öryggi fjarskiptakerfisins. „Það er hagsmunamál landsins alls en ekki síður stórkostlegt lífsgæðamál fyrir íbúa byggðanna.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert