Eldsupptök mögulega út frá rafmagni

Eldurinn braust út í morgun.
Eldurinn braust út í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grunur leikur á að eldurinn sem braust út í frystihúsinu Ramma á Siglufirði í morgun hafi kviknað út frá rafmagni. Mestur eldur var við rafmagnstöflu í móttöku á vinnslunni sjálfri, að sögn Ámunda Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar. Lögreglan vinnur að rannsókn á eldsupptökum en niðurstaðan liggur ekki fyrir. 

Úðakerfi hélt eldinum niðri að mestu leyti og bjargaði því sem bjargað varð en ljóst er að tjónið er talsvert. „Það þarf að þrífa allt,“ segir Ámundi. Hann telur líklegt að vinnsla hefjist ekki að nýju fyrr en eftir áramót því rífa þarf veggi og smíðavinna því framundan. 

Talsverð vinna er framundan eftir óveðrið.
Talsverð vinna er framundan eftir óveðrið. Ljósmynd/Mikael Sigurðsson.

Rafmagn komst á frystihúsið klukkan 4 í gærdag. Íbúar þurftu að bíða nokkra sólarhringa eftir að rafmagn kæmist á húsnæði. Hann segir hljóðið í íbúum í Fjallbyggð þungt.  „Menn eru bæði sárir og svekktir yfir vinnubrögðum Rarik og stjórnvalda. Við heyrðum ekki í FM-bylgju í útvarpinu. Þetta var allt meira og minna úti,“ segir hann. 

Enginn starfsmaður frá Rarik er staðsettur á svæðinu og því þurftu björgunarsveitarmenn og rafmagnsverkfræðingar sem búsettir eru á svæðinu að tengja varaaflstöðina. „Við urðum að sjá um þetta sjálf,“ segir Ámundi.  

.
.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert