Kindum og hænum bjargað úr snjónum

Björgunarsveitarmaður bjargar kind.
Björgunarsveitarmaður bjargar kind. Ljósmynd/Björgunarsveitin Grettir

Verkefni björgunarsveita í Skagafirði hafa verið mörg í kjölfar óveðurs og rafmagnsleysis síðustu daga. Félagar út björgunarsveitinni Gretti hafa sinnt verkefnum í Tindastóli, Sauðárkróki, Viðvíkursveit, Hjaltadal, Hofsósi, Unadal, Höfðaströnd, Sléttuhlíð og Fljótum þar sem þeir grófu meðal annars kindur upp úr fönn.

„Björgunarsveitin fór í að grafa upp á tveimur bæjum en það er örugglega víðar,“ segir Ingimundur Ingvarsson í svæðisstjórn björgunarsveita Skagafjarðar.

Kindurnar voru niðurgrafnar.
Kindurnar voru niðurgrafnar. Ljósmynd/Björgunarsveitin Grettir

Auk þess var hænum bjargað en þær voru í kofa sem var kominn á bólakaf í snjónum. 

„Það var grafið upp á tveimur stöðum, björgunarsveitir komu eitthvað að því en bændur björguðu sér einnig með öðrum leiðum enda vorum við mikið í öðrum verkefnum,“ segir Ingimundur.

Hann segir að dýrin sem hafi verið komin í fönn hafi eingöngu verið kindur og að þeim hafi verið bjargað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert