Landsréttur þyngir dóm vegna hótana

Í dómi Landsréttar segir að engu breyti þótt ákærði og …
Í dómi Landsréttar segir að engu breyti þótt ákærði og brotaþoli hafi átt í sambandi um tíma. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur þyngt skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni úr 30 dögum í 3 mánuði fyrir brot gegn blygðunarsemi og hótanir í garð konu sem hann hafði áður átt í sambandi við.

Karlmaðurinn var ákærður vegna sex mismunandi skilaboða sem hann sendi konunni í janúar 2018 og var sakfelldur í fjórum ákæruliðum fyrir héraðsdómi.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði manninn hins vegar í tveimur ákæruliðum, annars vegar vegna skilaboða sem ákæruvaldið taldi brot gegn blygðunarsemi konunnar, en þau voru svohljóðandi: „Ætlaru að riða mer a eftir? [...] Viltu mig? Riddu mer dóninn þinn [...] Riddu mer beibe“.

Taldi héraðsdómur að vegna sambands karlsins og konunnar, og vegna þess að þau hefðu í nokkur skipti haft kynferðismök eftir að því lauk, væri ekki hægt að fallast á það að ummælin hafi verið til þess fallin að særa blygðunarsemi hennar.

Í dómi Landsréttar segir hins vegar að engu breyti þótt ákærði og brotaþoli hafi átt í sambandi um tíma. Auk þess bæri að líta til þess að konan hafi verið tvítug á þessum tíma en maðurinn átta árum eldri.

Hins vegar var maðurinn sýknaður af sakargiftum um hótanir vegna svohljóðandi skilaboða í héraði: „Litla fokking hóran þín Þúrt hóra A [...] Það er það sem þu ert Hóra Hóra Ekkert nema hóra Eg hata þig Fokking deyðu A“.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar verður hins vegar að virða skilaboðin í samhengi við þau sem á undan og eftir fóru. 

„Þannig voru næstu skilaboð sem ákærði sendi henni á þessa leið: „Eg hata
þig A Þu ert exactly the whore i wanna kill“. Með hliðsjón af framangreindu verða þau ummæli sem í 3. ákærulið greinir talin fela í sér refsiverða hótun í garð brotaþola og verður hann einnig sakfelldur fyrir þau,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.

Einn dómari skilaði sératkvæði

Vert er að taka fram að einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði, en hann telur að staðfesta hafi borið dóm héraðsdóms um sýknu í 1. ákærulið þar sem honum var gefið að sök brot gegn blygðunarsemi konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert