Samkomulagi náð um þinglok

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til stóð samkvæmt starfsáætlun Alþingis að síðasti þingfundur fyrir jólahátíðina færi fram í dag en í samræmi við samkomulag þingflokkanna um þinglok verður fundað á mánudag og þriðjudag eftir helgi. Þetta staðfestir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Samkomulag þingflokkanna felst í því að ákveðin þingmál ríkisstjórnarinnar verði afgreidd fyrir jól og eitt þingmannamál frá hverjum flokki. Þar af hefur þingmannamál frá Sjálfstæðisflokknum þegar verið afgreitt að sögn Bjarkeyjar. Þá verður mælt fyrir þremur málum sem verður komið til nefndar. Þar er um að ræða fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og tvö mál frá fjármálaráðuneytinu.

Hluti samkomulagsins er áhersla þingflokksformanna á að breyta vinnulagi sínu og reyna að tala meira saman. Setjast niður þegar nefndarfundir hefjast eftir áramótin og hafa reglubundið samráð um að leysa úr þingmannamálum sem einhver ágreiningur er um. Leita þannig leiða til þess að reyna að afgreiða slík mál úr nefnd.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert