Þyrla og drónar við leit í dag

Mikill kuldi er á svæðinu en veðurspá er þó hagstæðari …
Mikill kuldi er á svæðinu en veðurspá er þó hagstæðari fyrir daginn í dag en verið hefur. Leitarskilyrði eru þó mjög erfið vegna kulda og krapa í ánni. Ljósmynd/Lögreglan

Leitin að drengnum sem féll í Núpá í Sölvadal á miðvikudagskvöld er að hefjast af fullum þunga á ný eftir að dregið var úr leit í nótt og áin vöktuð.

Um 200 leitarmenn og á þriðja tug tækja verða við leit í dag og verður áhersla lögð á að leita frá slysstað og niður að Stekkjaflötum með leitarmönnum, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar verður notuð ásamt dróna frá sérsveit ríkislögreglustjóra og björgunarsveitum.

Kafarar leita ekki í ánni vegna hættu á krapaflóði

Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Landhelgisgæslunni hafa ekki náð að kafa í ánni en unnu við sérhæfða leit í gær. Ekki er fyrirhugað að leita með köfurum í ánni vegna mikillar hættu á krapaflóði.

Í dag verður leitað á þrettán leitarsvæðum. Mikill kuldi er á svæðinu en veðurspá er þó hagstæðari fyrir daginn í dag en verið hefur. Leitarskilyrði eru þó mjög erfið vegna kulda og krapa í ánni.

Leitarhópar lögðu af stað frá Akureyri klukkan 9 í morgun og verður leitað fram á kvöld. Vettvangsstjórn lögreglu og björgunarsveita er við félagsheimilið Sólgarð þaðan sem björgunarmenn fá úthlutað verkefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert