Vilja fjölga hjúkrunarfræðingum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu sér aðstæður …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu sér aðstæður á Landspítalanum fyrr á þessu ári. Svandís hefur skipað nefnd til að fjalla um menntun hjúkrunarfræðinga og gera tillögur um aðgerðir sem leitt geta til þess að fleiri útskrifist með hjúkrunarfræðimenntun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um menntun hjúkrunarfræðinga og gera tillögur um aðgerðir sem leitt geta til þess að fleiri útskrifist með hjúkrunarfræðimenntun. Nefndinni er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. mars næstkomandi.

Á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála 15. ágúst síðastliðinn kynnti heilbrigðisráðherra tillögur sínar um starfshópa til að fjalla um menntunarmál heilbrigðisstétta. Á fundinum voru einnig rædd áform um samstarf heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis á þessu sviði, meðal annars með stofnun starfshóps eins og hér um ræðir varðandi menntun hjúkrunarfræðinga, að því er segir í tilkynningu á Stjórnarráðsins. 

Formaður starfshópsins er Vilborg Ingólfsdóttir, skipuð af heilbrigðisráðherra. Aðrir nefndarmenn eru:

  • Herdís Gunnarsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneytinu
  • Þórhalla Sigurðardóttir, tilnefnd af Sjúkrahúsinu á Akureyri
  • Helga Gottfreðsdóttir, tilnefnd af Ljósmæðrafélagi Íslands
  • Margrét Hrönn Svavarsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri
  • Herdís Sveinsdóttir, tilnefnd af hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
  • Hrund Scheving Thorsteinsson, tilnefnd af Landspítala
  • Gísli Kort Kristófersson, tilnefndur af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Starfsmaður hópsins er Brynhildur Magnúsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Þess má geta að heilbrigðisráðherra skipaði fyrir skömmu starfshóp sem kanna á stöðu framhaldsmenntunar lækna hér á landi og koma með tillögur að því hvernig tryggja megi nægilegt framboð lækna með framhaldsmenntun svo unnt sé að manna íslenska heilbrigðiskerfið til framtíðar. Sá hópur var skipaður 17. október síðastliðinn og á að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 10. janúar næstkomandi, segir ennfremur í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert