Allt að 133% verðmunur á tölvuleikjum

Mikill verðmunur getur verið á tölvuleikjum og því skynsamlegt að …
Mikill verðmunur getur verið á tölvuleikjum og því skynsamlegt að gera verðsamanburð. AFP

Algengt er að mikill verðmunur sé á tölvuleikjum í íslenskum verslunum og getur sá verðmunur numið mörg þúsund krónum á leik. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands, ASÍ, stóð fyrir. 

Könnunin var framkvæmd hinn 12. desember og beindist að Heimkaup.is, Elko, Geimstöðinni, Tölvuteki og Bræðrunum Ormsson. 

Mestur munur var á töluleiknum Spyro Reignited Trilogy eða 133% munur á hæsta og lægsta verði. Þannig kostaði leikurinn 2.995 krónur í Geimstöðinni en 6.995 krónur í Elko. 100% verðmunur var á hæsta og lægsta verði á leiknum Tekken 7, hann kostaði 9.990 krónur í Heimkaupum en 4.999 krónur í Geimstöðinni. 

50% verðmunur á FIFA 20

„Úrvalið var mjög misjafnt eftir verslunum og í mörgum tilfellum voru einungis örfáar, jafnvel bara tvær verslanir sem voru með sömu tölvuleiki en þrátt fyrir það gat munað mjög miklu í verði,“ segir í tilkynningu frá ASÍ. 

2.000 króna verðmunur var milli verslana á Star Wars Jedi: Fallen order-tölvuleiknum en hann var dýrastur í Tölvuteki og kostaði þar 13.990 krónur. 4.005 króna verðmunur var á Shadow of the Tomb Raider fyrir PS4. Sá er dýrastur í Geimstöðinni og ódýrastur í Elko. Þá var 50% eða 3.500 króna verðmunur á leiknum FIFA 20 fyrir Nintendo Switch sem notið hefur mikilla vinsælda.

Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að gera verðsamanburð á jólagjöfum enda geti það sannarlega borgað sig. Hafa ber í huga að verð á vörum getur breyst hratt í kringum jólin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert